Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kanada boðar refsitolla á bandarískt ál

08.08.2020 - 01:29
Mynd með færslu
Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada. Mynd: EPA-EFE - EFE
Kanadísk stjórnvöld tilkynntu í dag að þau muni leggja tolla á bandarískt ál og álvörur, fari svo að Bandaríkjastjórn standi við boðaðan tíu prósenta refsitoll á kanadíska álframleiðslu. Kanadísku tollarnir nema 3,6 milljörðum kanadadollara, jafnvirði um 360 milljarða íslenskra króna ef af verður.

Tilkynningin er svar Kanadastjórnar við yfirlýsingu Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, sem á fimmtudag boðaði að refsitollar yrðu lagðir á innflutt ál frá Kanada, þrátt fyrir nýundirritaðan fríverslunarsamning stóru Norður-Ameríkuríkjanna þriggja, Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó. Rökstuddi hann þetta með því að kanadískir álframleiðendur hefðu misnotað fríverslunarsamninginn til að stórauka innflutning til Bandaríkjanna og undirbjóða bandaríska framleiðendur.

Tilskipun Trumps tekur gildi 16. ágúst að óbreyttu, en kanadísku refsitollarnir verða lagðir á mánuði síðar. Forsetinn sagði tollunum ætlað að vernda bandarískan iðnað og störf en viðbrögð bandarískra iðjuhölda við þessari verndaraðgerð hafa verið blendin. Þannig segja samtök fyrirtækja sem framleiða bílaíhluti og varahluti að aðgerðin muni auka á vandræði greinarinnar fremur en draga úr þeim á tímum samdráttar og lokunar verksmiðja. 

 

Öllum til ógagns á erfiðum tímum

Chrystia Freeland, aðstoðarforsætisráðherra Kanada, gagnrýndi áform Bandaríkjastjórnar harðlega á blaðamannafundi á föstudag. Hún sagði viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og Kanada það síðasta sem fólk þyrfti á að halda í miðjum heimsfaraldri og einungis til þess fallið að skaða atvinnulífið beggja vegna landamæranna.

„Hver einasti Bandaríkjamaður sem kaupir sér dós af bjór eða gosi, eða bíl eða reiðhjól, mun líða fyrir þetta," sagði Freeland, „og reyndar verða þvottavélarnar sem Trump stóð fyrir framan í gær verða dýrari líka." Vísaði hún þar til þess, að Trump kynnti fyrirætlanir sínar um refsitollana þegar hann flutti ávarp í þvottavélaverksmiðju Whirlpool-raftækjarisans í Ohio. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV