Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fóru í eigin gleðigöngu í stað stóru göngunnar

08.08.2020 - 20:04
Mynd: Þorsteinn Magnússon / RÚV
Hinsegin dagar voru sannarlega hinsegin í ár. Fólk fór í eigin gleðigöngur og skreytti húsin sín en fannst það vera að missa af geggjuðu partíi sem var samt ekki í gangi.

Uppgjör Kirkjunnar og hinsegin fólks

Það má segja að ákveðin tímamót hafi átt sér stað í Hallgrímskirkju í morgun. „Ég bið hinsegin samfélagið í heild sinni og öll þau sem hafa upplifað fordóma og útskúfun af hendi þjóðkirkjunnar afsökunar,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands.

Samtökin '78 og kirkjan hrintu í dag af stað verkefninu Ein saga - eitt skref, þar sem persónulegum reynslusögum af fordómum og andstöðu kirkjunnar við réttindi hinsegin fólks í gegnum árin verður safnað saman og þær gerðar opinberar á næsta ári.

„Það þarf að gera svona hluti upp, það þarf að eiga sér stað uppgjör,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir  formaður Samtakanna ´78.

„Við þurfum að heyra frá fyrstu hendi þessa erfiðu upplifun fólks, hvernig hún var, til þess að geta lært af því,“ segir Agnes jafnframt.

Mikilvægt að vera sýnileg

Hápunktur Hinsegin daga er venjulega gleðigangan, sem átti að halda í dag, en var aflýst eins og öllum öðrum viðburðum á vegum Hinsegin daga eftir að samkomutakmarkanir voru hertar í síðustu viku. Það var því aðeins öðruvísi um að litast í miðbænum á Hinsegin dögum í ár en venjulega.

Stjórn Hinsegin daga hvatti fólk hins vegar til að fara í eigin gleðigöngu í stað þeirrar sem þurfti að aflýsa. „Okkur þykir mikilvægt að vera sýnileg. Við viljum fagna Hinsegin dögum að sjálfsögðu. Áfram með baráttuna, við hittumst í smærri hópum og fögnum áfram,“ segir Margrét Ágústa Þorvaldsdóttir.

Missa af partíi sem er ekki í gangi

Þá söfnuðust nokkrir saman á Klambratúni í aðeins lágstemmdari stemningu en venjulega. „Þetta er mjög óvenjulegt, maður finnur fyrir sorg í hjartanu yfir þessu öllu saman, almennt ástandinu. Mér líður eins og ég sé að missa af geggjuðu partíi sem er ekki í gangi,“ segir Sigríður Eir Zophoníasardóttir.

„Við erum búin að vera að taka þátt í göngunni síðan 2001 með einum eða öðrum hætti. Það er svo skrítið að vakna um morguninn og hafa ekkert að gera, það er svo furðulegt,“ segir Sigurður Júlíus Guðmundsson.

Þá var fólk hvatt til að skreyta heima hjá sér í tilefni dagsins og Seyðfirðingar létu sitt ekki eftir liggja. Þar viðraði aðeins betur á gesti og gangandi í óvenjulegri hýrri halarófu sem er árleg ganga á Seyðisfirði á þessum degi.