Enginn er syndlaus og syndin er víða

Mynd: Samsett mynd / Samsett mynd

Enginn er syndlaus og syndin er víða

08.08.2020 - 12:03

Höfundar

Eldum björn er glæpasaga – en afskaplega langt frá því að vera notalegur reyfari þar sem illvirkjarnir fá makleg málagjöld og heimurinn verður aftur góður í sögulok. Glæpir þeir sem skáldsagan tíundar eru raunar margir og vonska fólks tekur á sig ýmsar myndir en verst er illskan þegar hún bitnar á þeim sem síst skyldi, á börnum, segir Maríanna Clara Lúthersdóttir gagnrýnandi.

Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar: 

Sænski rithöfundurinn Mikael Niemi er fæddur og uppalinn nálægt landamærum Finnlands í nyrsta hluta Svíþjóðar, í Pajala, og þar býr hann enn. Hann hefur getið sér gott orð fyrir bæði skáldsögur og ljóðabækur en þekktastur er hann sennilega fyrir skáldsöguna Rokkað í Vittula sem kom út hér á landi fyrir bráðum tuttugu árum og sló í gegn um allan heim.

Eins og í Rokkað í Vittula gerist Eldum björn á æskuslóðum höfundar, í Tornedal við landamæri Finnlands. Þetta er svæði sem hefur ákveðna sérstöðu. Íbúarnir, sem margir hverjir eru Samar eða af samískum ættum, tala ýmist samísku eða sænska mállýsku með þykkum finnskum hreim og upplifa sig að sumu leyti sem ákveðin olnbogabörn Svíþjóðar.

Þá er einnig sameiginleg með bókunum sterk trúarleg taug þar sem hluti íbúanna í Rokkað í Vittula telur sig til sértrúarsöfnuðar laestídíanna en frumkvöðull þeirra var eld-presturinn Lars Levi Læstadius sem er einmitt önnur aðalpersónan í Eldum björn. Því má segja að ákveðinn grunnur sé sameiginlegur þessum annars afskaplega ólíku skáldverkum, eða kannski er aðeins óhætt að fullyrða að þær spretti úr sömu jörð.

Eldprestur og ungur Samadrengur miðpunktur bókarinnar

Meðan Rokkað í Vittula var þroskasöga tveggja unga drengja á bítlatímabilinu segir í Eldum björn frá áðurnefndum eldpresti og ungum Samadreng um miðja nítjándu öld.

Atburðir bókarinnar hverfast um skelfileg morð sem framin eru á ungum konum í afskekkta þorpinu Kengis en einnig og ekki síður um vonsku mannanna, um trúarvakningu nítjándu aldarinnar, um ofsóknir gegn Sömum, um brennivínsdjöfulinn, um þann kraft sem býr í tungumálinu og, þrátt fyrir allt, um mátt kærleika og fyrirgefningu. Bókin er bæði feiknavel skrifuð sem og ófyrirsjáanleg og spennandi.

Mögnuð en ekki alltaf auðveld lesning

Eldum björn er mögnuð lesning en ekki alltaf auðveld, til þess er vonskan of mikil og heimurinn of harður. Sagan er að mestu sögð frá sjónarhóli Jussa, ungs samísks manns sem presturinn fann ungan að árum í skóginum og tók upp á sína arma.

Presturinn sjálfur, Lars Levi Læstadius, byggist, eins og áður sagði, á raunverulegum heimildum þótt væntanlega taki Niemi sér töluvert skáldaleyfi í frásögninni. Læstadius þessi varð fyrir mikilli trúarupplifun og boðaði upp frá því ákveðinn pietisma, svokallaða vakningu. Hér birtist hann sem stakur reglumaður sem berst hart á móti áfengisneyslunni sem leikur sóknarbörn hans og þá sérstaklega Sama svo grátt og fær þar af leiðandi veraldleg yfirvöld upp á móti sér, enda eiga kaupmenn og kráareigendur mikið undir því að sauðsvartur almúginn eyði sínu lausafé í öl og vín.

Læstadius var virtur grasafræðingur sem skrifaði greinar og bækur um þá ástríðu sína og í skáldsögunni eru það stærstu gjafirnar sem hann gefur Jussa, þekking á plöntum, hið ritaða og talaða orð og svo auðvitað kærleikurinn og hlýjan sem hann sýnir drengnum.

Tengsl veru og orða rauði þráðurinn

Það er erfitt að skilja til fullnustu stöðu Sama í því þjóðfélagi sem birtist í bókinni en Jussi situr ekki til borðs með öðru heimilisfólki, sefur ekki í rúmi heldur á gólfinu og talar mjög lítið, sérstaklega framan af. Presturinn og fjölskylda hans eru drengnum þó greinilega góð en af ýmsum ástæðum eru ákveðnir þröskuldar í samfélagi manna sem Jussa reynist erfitt að stíga yfir.

Þar kemur líka til hinn skelfilegi bakgrunnur drengsins. Móðir hans er mjög illa farinn alkóhólisti sem ekki bara vanrækti drenginn og systur hans heldur beitti þau skelfilegu ofbeldi. Þegar presturinn finnur Jussa er hann ekki aðeins tekinn í fóstur heldur einnig gefið nafn og skráður í kirkjubækur og í augum drengsins er það við þessa athöfn sem hann öðlast líf, verður til sem manneskja.

Þessi tengsl veru og orða, bæði talaðra og ritaðra orða er rauður þráður í gegnum alla bókina og jafnvel það sem lyftir henni frá því að vera afskaplega vel skrifaður sögulegur reyfari og yfir í að vera á köflum magnað tilvistarlegt skáldverk.

Presturinn og drengurinn á öndverðum meiði

Árið 1852 gerast voveiflegir atburðir í litla þorpinu Kengis og hefst skelfileg atburðarásin á því að smalastúlkan Hilda hverfur og þegar lík hennar finnst telja yfirvöld að hér hafi verið á ferðinni grimmur björn. Presturinn og samadrengurinn ráða hins vegar allt annað úr vegsummerkjunum enda presturinn kunnur plöntufræðingur og þaulvanur að lesa í náttúruna.

Þegar fleiri konur finnast látnar hefst kapphlaup þeirra tveggja við að reyna að finna hinn seka, barátta sem er þeim mun erfiðari þar sem yfirvöld á staðnum og síðar í auknum mæli almannarómur eru ekki á þeirra bandi. Undiraldan í þjóðfélaginu vex um leið og glæpirnir verða hræðilegri og ljóst að eitthvað verður undan að láta.

Enginn er hafinn yfir mannlega bresti

Átökin í bókinni eru mikil og af ýmsum toga en kunnuglegir andstæðir pólar birtast fljótt. Veraldleg yfirvöld og kirkjan takast á, græðgi kaupmannanna gegn nægjusemi Jussa, ofbeldi fjöldans gegn góðmennsku prestsins, sollurinn og áfengið í bænum gegn friðsæld náttúrunnar.

En þótt Jussi kysi það helst eru hlutirnir þó ekki alltaf svartir og hvítir. Enginn er syndlaus og syndin er víða. Jafnvel presturinn, án nokkurs vafa góður maður, er ekki hafinn yfir mannlega bresti og vakning hans hefur alvarlegar afleiðingar þótt hann geri sitt besta til að lægja ófriðaröldur.

Hann er ákaflega trúaður, en trú hans er ekki klöppuð í stein og hann berst við efasemdir, ekki um tilvist guðs heldur um hvernig mannfólkið eigi að bera sig að í trúariðkun sinni og hvort hann sé í raun og veru ávallt að breyta rétt, eins og hann vill í fullum sannleika gera, eða hvort hans eigin hégómi og stolt ráði jafnvel för.

Presturinn er jafnframt maður upplýsingar að því leyti að hann hikar ekki við að kynna sér nýjustu tækni og nýta sér vísindin í þágu rannsóknarinnar. Þannig notast þeir Jussi við ljósmyndir og fingraför í bland við forna þekkingu á jurtum og atferli dýra til að ráða gátuna.

Atburðarásin er hröð og spennan magnast sífellt

Atburðarásin er hröð, ofbeldið óhugnanlegt og spennan magnast sífellt eftir því sem líður á bókina en þó sitja ekki síst eftir vangaveltur Jussa og prestsins um stærra samhengi hlutanna.

Presturinn skilur betur en nokkur annar kyngimagn ritaðra og talaðra orða og leitast við að kenna Jussa þennan galdur. Jaðarsetning Sama í samfélaginu er augljós og mikilvægi þess að þeir fái rödd undirstrikað þegar Jussi byrjar að rista eigin sögu með hörðu priki í Biblíu þá sem presturinn ljær honum.

Sagan er þannig ósýnileg þar til strikað er varlega yfir blaðsíðuna með blýanti. Þessi ósýnilega saga þjóðflokksins sem er hreinlega rituð yfir orð guðs verður að mögnuðu tákni fyrir stöðu sama í Norrænu samfélagi. Rétt eins og Jussi sjálfur verður saga Sama ekki gildandi fyrr en hún hefur verið skráð, fyrr en raddir þeirra fá að hljóma.

Sjálfsævisöguleg saga helsti innblástur höfundar

Í eftirmála höfundar kemur fram að einn helsti innblásturinn að skáldsögunni hafi verið sjálfsævisöguleg frásögn að nafni Mu eallin sem var gefin út í Norður-Noregi árið 1890 og er eitt elsta ritverkið á samískri tungu sem fundist hefur. Nafn höfundarins er óþekkt.

Þýðing Ísaks Harðarsonar á skáldsögunni er frábær. Myndrænn textinn heldur ljóðrænu sinni án þess þó að tapa spennunni og þeirri óþægilegu undirliggjandi tilfinningu að tíminn sé á þrotum.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Allir taka frásögn sálfræðingsins með fyrirvara

Bókmenntir

Draugar fortíðar birtast á blaði

Bókmenntir

Sumarið er árstíð glæpasagna