Brasilía: Yfir 100.000 dauðsföll og 3 milljónir smita

08.08.2020 - 23:20
epa08592117 A couple take photos next to an installation of red balloons and crosses honoring victims of the coronavirus pandemic in Brazil, at Copacabana beach in Rio de Janeiro, Brazil, 08 August 2020. Brazil is the second most Covid-19 affected country in the world, and it is expected to surpass 100,000 coronavirus deaths on 08 August.  EPA-EFE/Antonio Lacerda
Svartir krossar og rauðar blöðrur til minningar um fórnarlömb COVID-19 á Copacabana-ströndinni í Ríó de Janeiró Mynd: EPA-EFE - EFE
Þau tíðindi bárust í kvöld frá heilbrigðisyfirvöldum í Brasilíu að þar hafi fleiri en 100.000 manns dáið úr COVID-19 og kórónaveiran sem veldur sjúkdómnum greinst í fleiri en þremur milljónum manna. Forseti öldungadeildar Brasilíuþings lýsti yfir fjögurra daga þjóðarsorg til að minnast hinna látnu af þessu tilefni.

Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins segir að 905 hafi dáið úr COVID-19 síðasta sólarhringinn og rétt tæplega 50.000 smit verið staðfest. Þar með eru dauðsföllin orðin 100.477 og smitin 3.012.412, samkvæmt opinberum tölum. AFP-fréttastofan hefur eftir sérfræðingum þar syðra að þetta sé að öllum líkindum mikið vanmat og að smitin séu allt að sex sinnum fleiri en opinberar tölur segja til um, þar sem skimun sé afar ábótavant í landinu. Þá þykir líka ljóst að skráningu COVID-19 sem dánarorsakar sé verulega ábótavant.

Sóttin geisar enn af fullum þunga

Fyrsta kórónaveirusmitið í Brasilíu greindist 26. febrúar og fyrsta dauðsfallið var rakið til COVID-19 12. mars. Í vor færðist sóttin mjög í aukana þar í landi og virðist ekkert á undanhaldi. Enn deyja um eitt þúsund manns úr sjúkdómnum á degi hverjum og um og yfir 50.000 greinast með veiruna.

Brasilía er það land utan Bandaríkjanna sem verst hefur farið út úr farsóttinni. Samkvæmt opinberum tölum er dánartíðnin þar 478 dauðsföll á hverja milljón íbúa. Það er svipað hlutfall og í Bandaríkjunum, þar sem talan er 487 dauðsföll á milljón íbúa, en töluvert lægra en á Spáni (609) og Ítalíu (583). 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi