„Það þarf að vera hallærislegt að passa sig ekki”

Mynd: Trinity Kubassek / CC0
Margt ungt fólk smitast nú af kórónuveirunni en um helmingur virkra smita í landinu er hjá fólki sem er undir fertugu og 40 prósent smitaðra eru undir þrítugu. Valgeir Magnússon, stjórnarformaður auglýsingastofunnar Pipar, segir að þetta kalli á nýja nálgun í upplýsingagjöf, nú sé einfaldlega ekki talað til yngri aldurshópa.

Valgeir var á línunni Í morgunútvarpi Rásar 2.

Nýja bylgjan af markaðslegum toga

„Í þessari bylgju virðist þetta vera markaðslegt vandamál. Unga fólkið er ekki að taka þátt, og það er ekkert hægt að sakast við það, það er enginn að tala við það.“ 

Hann segir þau ekki hafa áhuga á því að horfa á upplýsingafundi klukkan tvö og að það dugi ekki að setja fram eina herferð fyrir alla aldurshópa.

Nú sé sett í gang sama herferð og „sama samlokan seld tvisvar.“ Valgeir segir að ungt fólk sjái ekki nægan tilgang í að breyta lífi sínu í ótakmarkaðan tíma einungis fyrir almannaheill. Yngra fólk sé minna hrætt við að fá COVID-19 sjálft því raddir hafi heyrst um að ungt fólk veikist lítið af veirunni. 

Það þurfi því að að hafa skýrara markmið eða ávinning af því að gera líf sitt „aðeins leiðinlegra.” Valgeir hefur fulla trú á því að markaðsátak beint að yngra fólki bæti heildarárangur í sóttvörnum.

„Ég stórefa að mikið af unga fólkinu sé með [rakningar]appið því það sér ekki tilgang í því. Það þarf að vera töff að passa sig og hallærislegt að passa sig ekki,” sagði Valgeir.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi