Í óperunni segir frá saklausum malaradreng sem verður ástfanginn af malarastúlkunni fögru og tilvera hans riðar til falls, náttúran snýst gegn honum og hann týnir sjálfum sér. Í túlkun Sveins Dúu Hjörleifssonar tenórs og leikstjórans Grétu Kristínar Ómarsdóttur er verkið þó skoðað í öðru ljósi - sjálfsuppgötvunar, kyntjáningar og húmors fyrir óreiðu tilverunnar. „Þetta er svona tónleikakvöld nema að söngvarinn er líka dragdrottning sem finnur þetta kvöld sína innri dragdrottningu sem stígur á svið í fyrsta skipti,“ segir Gréta Kristín.
Sveinn Dúi segist hafa sungið lagabálkinn mjög oft en hugmyndin að dragóperu hafi verið að velkjast innra með honum í mörg ár. „Einhvern tímann bara vitraðist hún mér, ég held ég hafi sungið þetta fyrst 2011.“ Að sögn Grétu Kristínar er grunnspurningin sú ef tenórinn uppgötvar malarastúlkuna innra með sér. „Gæti ekki malarastúlkan líka verið malaradrengurinn? Þetta er saga um manneskjuna og handan tvíhyggjunnar.“ Sveinn Dúi segir samruna óperu og drags í raun mjög rökréttan og organískan. „Þetta er bara performans. Auðvitað er þetta meira popp. En ópera var einu sinni popp. Það er alveg tímabært að sameina þetta meira.“
Helga Margrét Höskuldsdóttir ræddi við Grétu Kristínu Ómarsdóttur og Svein Dúa Hjörleifsson í Sumarlandanum. Næsta sýning af Die Schöne Müllerin - Not a word about my sad face er í Tjarnarbíói 16. ágúst.