Stefnt að því að hefja allt skólahald á tilsettum tíma

07.08.2020 - 21:05
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Stefnt er að því að allt skólahald hefjist á tilsettum tíma, þrátt fyrir nýja bylgju faraldursins. Menntamálaráðherra hefur falið skólastjórnendum að útfæra starfsemina í samræmi við sóttvarnarreglur. Áhersla verður lögð á að kennsla raskist sem minnst. 

Framhaldsskólunum og háskólum er nú ætlað að laga starfsemi sína að tilmælum um tveggja metra fjarlægðarmörk og 100 manna hámarksfjölda í rýmum. Ekki er mælt fyrir um lokun skólabygginga, eins og gert var síðastliðið vor. Reglurnar gilda ekki um börn í leik- og grunnskólum, sem geta því starfað með hefðbundnum hætti.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra segir að einhver röskun gæti þó orðið á aðlögun yngstu barnanna á leikskólum þar sem foreldrar þurfa að vera með.

„Ég treysti leikskólastjórnendum og leikskólakennurum til að móta það starf eins og best verður á kosið.“

Sumir skólastjórnendur hafa óskað eftir því að seinka upphafi skólaárs um fáeina daga, til að veita kennurum meira svigrúm til undirbúnings. Aðrir hafa þegar gert viðeigandi ráðstafanir og skipulagt skólastarfið í þaula.

„Það voru mög fá menntakerfi í veröldinni sem hafa haft jafngott aðgengi eins og það íslenska núna á vordögum.“

Framhalds- og háskólar leggi sérstaka áherslu á móttöku nýnema. Mikilvægt sé að allir nemendur hitti sína kennara reglulega, skólasystkini og vini. Unnið sé að útfærslu á kennslu í list- og verkgreinum en ráðherra segist sannfærður um að þar finnst viðunandi lausn. 

„Ég er bara bjartsýn á það að við öll í sameiningu gerum allt sem við getum til þess að hér verði framúrskarandi menntakerfi.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi