Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Starfsmaður Landsnets gleðst yfir að vera heill heilsu

07.08.2020 - 20:46
Mynd: Úlla Árdal / RÚV
Starfsmaður Landsnets sem var inni í tengivirkinu á Rangárvöllum þegar skammhlaup varð þar á miðvikudaginn slapp ómeiddur. Hann segist ekki vera reiður þótt mannleg mistök hafi verið gerð, einungis glaður yfir að vera heill.

Skammhlaup varð í tengivirki Landsnets á Rangárvöllum fyrir ofan Akureyri á miðvikudaginn og olli það rafmagnsleysi í Eyjafirði og Fnjóskadal í á þriðja tíma. Andri Bollason, starfsmaður Landsnets, var við vinnu inni í tengivirkinu þegar skammhlaupið varð. 

Sprenging með miklum hita og hávaða

„Þegar maður spilar þetta aftur þá er atburðarásin mjög hæg. Maður heyrir að það er í rauninni vitlaus rofi að fara í gang og þá veit maður við hverju má búast svo maður skýlir sér með höndunum og bakkar svo bara ósjálfrátt afturábak þangað til maður lendir á vegg. Svo kemur sprengingin og þá verður maður fyrir miklum hita og mikill hávaði og þá eiginlega hnígur maður niður“ segir Andri Bollason, rafvirkjameistari á Akureyri. 

Hann segir vinnufélaga sinn því næst hafa kallað á sig og spurt hvort það væri í lagi með hann. Hann taldi sig hafa kallað til baka að hann þyrfti bara að ná andanum en síðar kom í ljós að hann hafði aðeins muldrað eitthvað óskiljanlegt enda var líkaminn í losti. Vinnufélaginn aðstoðaði Andra þá út.

Skoðaður í bak og fyrir

„Þá er ég bara kominn með náladofa upp í hendurnar og lappirnar virka eiginlega ekki og ég get ekki tjáð mig nema með einhverjum stikkorðum“ segir Andri. Ekið var með hann í flýti á sjúkrahús þar hann var skoðaður í bak og fyrir en fljótlega kom í ljós að hann hafði sloppið með skrekkinn. Hann hlaut engin brunasár og fékk að fara heim eftir að hafa verið tengdur við hjartalínurit í sólarhring. „Þó það séu engin sár á kroppinum getur hjartað farið að slá óreglulega þegar maður lendir í svona, bæði er þetta mikið afl og mörg volt sem eru í gangi“ segir hann.

Úttekt á atvikinu hafin

Svo virðist sem mistök hafi verið gerð og vitlaus rofi tekinn út. Andri segir þetta ekki eiga að geta gerst, það eigi að vera einhverjar varnir til staðar til að koma í veg fyrir þetta. Hann er þó ekki reiður, aðeins glaður yfir því að vera heill. Landsnet hefur hafið úttekt á atvikinu.