Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir að fjölgun starfa sé kostnaður fyrir borgina 

07.08.2020 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd:
„Fyrirtækin glíma við að þurfa að segja upp fólki og ég er að benda á að borgin er að bólgna út frekar en hitt,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í samtali við fréttastofu um færslu sem hann birti á Facebook í gær.  

„Á endanum er þetta allt kostnaður“ 

Í Facebook-færslunni gagnrýnir Eyþór að borgin auglýsi eftir starfsfólki „á sama tíma og fyrirtækin í borginni þurfa að segja upp fjölda starfsmanna“.

Eyþór segir í samtali við fréttastofu að Reykjavíkurborg auglýsi hlutfallslega fleiri laus stöðugildi en nágrannasveitarfélögin og að störfin séu auglýst á erlendum fréttasíðum: „Þetta er dæmi um að ekki sé verið að nýta tæknina og hagræða. Á endanum er þetta allt kostnaður, hvort sem það er auglýsingakostnaður eða fjölgun starfa,“ segir hann.  

Aðspurður hvort ekki megi fagna því að borgin fjölgi störfum þegar aðrir halda að sér höndunum segir Eyþór að fyrsta skrefið eigi að vera að létta undir með fyrirtækjum í borginni. „Númer eitt er að verja störfin sem eru til og skapa tekjurnar í borginni. Því borgin lifir á skatttekjum fyrirtækja. Útsvarsskatturinn er hæstur í Reykjavík.“  

„Fjárfestum innanlands. Verjum störfin.“ 

Í Facebook-færslunni vísar Eyþór í starfaauglýsingu frá Reykjavíkurborg sem birtist honum þegar hann opnaði vefsíðu CNN: „Það vekur ekki síður athygli að verið er að kaupa auglýsingarnar meðal annars til birtingar á erlendri fréttaveitu. Hefði ekki verið nær að verja skattfénu í innlenda fréttamiðla? Fjárfestum innanlands. Verjum störfin,“ segir í færslunni.  

„Ég efast um að CNN fái ekkert fyrir þetta“ 

Stundin fjallaði um Facebook-færslu Eyþórs í gær. Í umfjöllun Stundarinnar er bent á að starfaauglýsingin er svokölluð Google-ad sem Google sér um að dreifa til þeirra internetnotenda sem hún gæti átt við. Reykjavíkurborg hafi ekki keypt auglýsinguna af CNN.

Í samtali við fréttastofu segir Eyþór að þó Google hafi milligöngu um auglýsinguna sé um að ræða birtingu á erlendum fréttamiðli. „Ég efast um að CNN fái ekkert fyrir þetta,“ segir hann.