Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Opnun landamæra stefndi almannagæðum og efnahag í hættu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Það er ekki rétt að það hafi verið nauðsynlegt fyrir efnahagslífið að opna fyrir flæði ferðamanna,“ skrifar Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, í grein sem birtist í Vísbendingu í dag. Greinin ber yfirskriftina „Voru gerð mistök í sumar?“ og þar færir Gylfi rök fyrir því að stjórnvöld hafi gert mistök með því að „opna“ landið fyrir ferðamönnum.  

Í samtali við fréttastofu segir Gylfi að ábatinn af því að slaka á ferðatakmörkunum til Íslands hafi verið ofmetinn. Hann minnir á að opnun landamæranna hafi líka falið í sér að Íslendingar færu til útlanda. Ef ferðatakmarkanir hefðu ekki verið rýmkaðar hefði eftirspurn Íslendinga hér á landi bætt upp fyrir tekjumissinn af ferðamönnum að miklu leyti. „Við höfum séð stóraukna eftirspurn Íslendinga innanlands eftir vörum og þjónustu,“ segir hann. Í fyrra hafi Íslendingar eytt um það bil 200 milljörðum erlendis en í sumar hafi þeir eytt stórum hluta þessara fjármuna hérlendis.   

Áhættan vanmetin   

Þá bendir hann á að kostnaðurinn af því að opna landamærin hafi ekki verið dreginn nægilega vel fram. Með því að auka fólksflutninga inn og út úr landinu hafi verið tekin áhætta með því að auka líkurnar á því að faraldurinn tæki sig aftur upp hér á landi. Kostnaðurinn af því geti verið verulegur: „Eins og við sjáum erlendis þar sem farsóttin herjar á þjóðfélög. Þar lamar hún efnahagsstarfsemi innanlands. Fólk þorir ekki að fara í verslanir, fólk mætir ekki til vinnu og svo framvegis. Og ég held að hagurinn af því að opna hafi verið ofmetinn og áhættan vanmetin,“ segir hann.  

Í Vísbendingu skrifar Gylfi að með ákvörðunum sínum um opnun landamæranna hafi stjórnvöld stefnt mikilvægum almannagæðum í hættu. Til dæmis þeim gæðum fólks að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki, unnið með öðru fólki og verslað. Þar með hafi efnahag landsins einnig verið stefnt í hættu.   

Hagsmunir ferðaþjónustunnar teknir fram yfir hagsmuni annarra   

Þá bendir Gylfi á að hagsmunum ferðaþjónustunnar hafi verið leyft að ráða ferðinni enda hafi ferðaþjónustan háværari talsmenn en flestir aðrir hagsmunahópar. „Sjaldan hefur verið augljósara hversu mikil áhrif ein atvinnugrein getur haft á ákvarðanir stjórnvalda,“ skrifar hann.  Í samtali við fréttastofu segir hann hagsmuni ferðaþjónustunnar vissulega skipta miklu máli. „Þeirra hagsmunir eru raunverulegir, þúsundir hafa misst vinnuna og fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja er á leið í þrot,“ segir hann.     

„En það sem skiptir líka máli er önnur þjónusta sem ekki tengist ferðamönnum. Þjónusta sem lamast í farsótt. Öll þjónusta innanlands og þorri atvinnulífsins krefst þess að fólk hittist, vinni saman á skrifstofum, sé að kaupa hvert af öðru í verslunum, að þeir sem séu að byggja ný hús geti mætt á byggingasvæði,“ segir hann.     

Þá minnir hann á að ekki megi gera lítið úr þeim lífsgæðum sem felast í því að búa í samfélagi þar sem engin farsótt geisar. „Hversu mikla áhættu erum við tilbúin að taka fyrir allt hagkerfið til þess að hjálpa einni atvinnugrein, þó hún sé mikilvæg? Það þarf að svara þeirri spurningu,“ segir Gylfi.  

Varaði stjórnvöld við í vor  

Gylfi varaði við því í vor að hagsmunir fárra fengju ekki að stefna heilsu og afkomu annarra í hættu. Þá sagðist hann telja að hagkerfið gæti náð sér á strik þrátt fyrir að fáir ferðamenn kæmu til landsins og að ekki væri hægt að fullyrða um að opnun landamæra myndi auka hagvöxt. Þótt erlendir ferðamenn kæmu hingað til lands með gjaldeyri væri hætt við að Íslendingar færu með fjármuni úr landi á móti. Hann benti á að það væri nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar við opnun landamæranna: „Þegar að það er svona mikil óvissa þá er alltaf skynsamlegt að taka mörg, lítil skref,“ sagði hann í samtali við fréttastofu í apríl.  

Aðspurður hvort hann telji að stjórnvöld hafi tekið ákvörðunina um að minnka ferðatakmarkanir að illa athuguðu máli segist Gylfi viss um að stjórnvöld vilji gera sitt besta til að sigrast á farsóttinni. „Þetta er svakalega erfið staða sem þau eru í, að þurfa að taka svona ákvörðun,“ segir hann.    

„Það eina sem skiptir máli er að þessi þjóð fari sem best út úr þessum faraldri. Svona innlegg eins og hjá mér er bara til að benda á atriði sem kannski var ekki lögð nógu mikil áhersla á á sínum tíma.“ Þá segist Gylfi vonast til að stjórnvöld íhugi að herða sóttvarnaraðgerðir á landamærunum þegar þau hafa náð tökum á þessari bylgju faraldursins.  

Landfræðileg staða Íslands sé tekin með í reikninginn   

Í greininni í Vísbendingu bendir Gylfi á að ýmis önnur eyríki hafi kosið að vernda eigið efnahagslíf og þjóðfélög með öflugum sóttvörnum á landamærum. Efnahagslífið þar hafi gengið framar vonum undanfarnar vikur þrátt fyrir fáa erlenda ferðamenn. „Landamæri Nýja Sjálands eru, svo dæmi sé tekið, lokuð enn þann dag í dag. Þeir sem fá leyfi til þess að koma til landsins þurfa að dvelja í 14 daga í sóttkví undir eftirliti og taka síðan próf áður en þeim er hleypt út í samfélagið,“ skrifar hann.   

Í samtali við fréttastofu segir Gylfi íslensk stjórnvöld hegða sér eins og stjórnvöld annarra Evrópuþjóða í stað þess að taka tillit til landfræðilegrar sérstöðu Íslands. Hann minnir á að hérlendis sé auðveldara en í langflestum Evrópulöndum að verja landamærin.     

„Önnur eyríki eins og Nýja Sjáland, Taiwan og Ástralía, sem hafa ekki landamæri að öðrum löndum hafa reynt að hefta útbreiðsluna á landamærum til þess að sóttvarnir innanlands geti verið minni,“ segir hann.  

Mælir ekki með aðhaldi í miðri niðursveiflu

Fjármálaráðherra hefur sagt að nú sé ekki svigrúm til að auka rekstrarútgjöld ríkisins. Aðspurður hvort hann sé sammála því að nú sé kominn tími á aðhald í ríkisfjármálum segir Gylfi ekki ráðlegt að skera niður ríkisútgjöld eða hækka skatta í miðri niðursveiflu. Ríkissjóður ætti því ekki að stíga á bremsina fyrr en veiran hættir að breiðast út og hagkerfið hefur náð sér á strik.