Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Mikil fjölgun kórónuveirusmita í Færeyjum

07.08.2020 - 12:56
Erlent · Innlent · COVID-19 · Færeyjar · Evrópa
Mynd: KRF / Kringvarp Færeyja
Kórónuveirusmit breiðast nú út með ógnarhraða í Færeyjum. 38 smit greindust þar í gær og 54 staðfest smit hafa fundist síðustu þrjá daga. Færeysk heilbrigðisyfirvöld segja stöðuna mjög alvarlega, kórónuveiran breiðist út hraðar í Færeyjum en nokkru öðru norrænu landi.

Mikið alvörumál

 Í fyrradag voru tekin sýni úr 900 manns á færeyskum sjúkrastofnunum en niðurstöðu voru ekki komnar úr öllum prófunum. Fæst hinna sýktu hafa veikst. Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, segir að allt bendi til að um innanlandssmit sé að ræða og því sé þetta mikið alvörumál.

 

Skjáskot úr fréttum færeyska Kringvarpsins af biðröð bíla og fólks eftir að fara í skimun vegna kórónuveirunnar. Frá Þórshöfn og Klakksvík
 Mynd: KRF - Kringvarp Færeyja
Biðröð eftir skimun í Klakksvík.

 

Langar biðraðir eftir sýnatöku

Í gær voru langar biðraðir eftir því skimun í Færeyjum. Kaj Leo Holm Johannesen, heilbrigisráðherra Færeyja, sagði á upplýsingafundi í gær að mikil áhersla yrði lögð á að fjölga sýnatökum og auðvelda   aðgengi að skimun fyrir kórónuveirunni.

103,8 af hverjum 100 þúsund smitaðir

Smitin 54 sem hafa fundist í Færeyjum síðustu þrjá daga svara til þess að rúmlega eitt hundrað af hverjum hundrað þúsund íbúum hafi sýkst af kórónuveirunni að því er segir á færeyska fréttavefnum FONyhedsbureau. Ekkert smit hafði fundist í Færeyjum í þrjá mánuði þangað til í vikunni.  

 

Skjáskot úr fréttum færeyska Kringvarpsins af biðröð bíla og fólks eftir að fara í skimun vegna kórónuveirunnar. Frá Þórshöfn og Klakksvík
 Mynd: KRF - Kringvarp Færeyja
Þórshafnarbúar bíða í bílum eftir skimun.

 

Sami uppruni smita

Heilbrigðisráðuneyti Færeyja segir að smitin hafi borist frá einum sýktum en ekki sé vitað hvernig sá fékk kórónuveiruna. Lars Fodgaard Møller, landlæknir Færeyja, segir að smitberinn hafi sýkt fólk í einkasamkvæmi og veiran hafi svo borist milli fólks á Ólafsvökunni, þjóðhátíð Færeyja, í lok júlí.

Mest ungt fólk

Fodgaard Møller segir flesta hinna sýktu vera ungt fólk sem ekki hafi veikst enn. Bárður á Steig Nielsen lögmaður hvetur landsmenn til að taka höndum saman, vera á verði, gæta fyllsta hreinlætis og verja þannig færeyskt samfélag, það hafi tekist í vor. Fari landsmenn jafn vel að reglum og í vor gangi þetta.