Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mengunartjón á Hofsósi ekki tilkynnt með réttum hætti

07.08.2020 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Umfangsmikið mengunartjón sem varð eftir leka úr olíutanki N1 á Hofsósi í vetur var ekki tilkynnt með réttum hætti til Umhverfisstofnunar. Byggðarráð Skagafjarðar krefst aukinna viðbragða frá fyrirtækinu, en vinna við jarðvegsskipti á svæðinu hefur þegar kostað N1 tugi milljóna.

Í vetur uppgötvaðist gat á olíutanki við bensínstöð N1 á Hofsósi og ljóst að lekið hafði úr honum í einhvern tíma. Vegna þessa flutti fimm manna fjölskylda úr húsi sínu hinum megin við götuna vegna mengunar og bensínlyktar og hús þeirra var loks dæmt óíbúðarhæft í vor. N1 skipti um jarðveg í kringum tankinn í sumar og bauð íbúum húsa að lofta út með búnaði, sem ekki er búið að nást sátt um.

Málið var tekið fyrir hjá byggðarráði Skagafjarðar í fimmta sinn í gær. Þar kom fram að N1 hefði ekki tilkynnt mengunartjónið með skýrum hætti til Umhverfisstofnunar, nokkuð sem sveitarfélagið lítur alvarlegum augum.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festis sem er móðurfélag N1, segir að málið hafi strax verið tilkynnt heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra sem hafi farið með það áfram.

„Okkur þykir mjög leitt að við höfum ekki farið beint í Umhverfisstofnun, en umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun vita allt um málið. Við töldum að þetta myndi duga og munum þá bara bæta úr því,“ segir Eggert.

Kostnaður þegar hlaupið á tugum milljóna

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, segir sveitarfélagið hafa ítrekað að N1 uppræti mengunina á svæðinu, hvar sem hana er að finna, þar sem það bendi til að hún leiti langt frá upptökum sínum við bensínstöðina.

Eggert segir fyrirtækið aldrei hafa ætlað að skorast undan slíku. Kostnaður N1 við að skipta um jarðveg hafi þegar hlaupið á tugum milljóna.

„Við erum tilbúin til að gera allt sem þarf til að tryggja það að þessi mengun verði upprætt. Það liggur alveg fyrir vilji hjá okkur sem sveitarfélagið veit alveg af,“ segir Eggert.

Uppfært klukkan 15.50 með eftirfarandi athugasemd frá N1:

„Það er hárrétt hjá byggðaráði Skagafjarðar að N1 hefur ekki tilkynnt um óhappið skriflega til Umhverfisstofnunar. Ástæðan er sú að Umhverfisstofnun hefur upplýst N1 um að aðeins eigi að tilkynna óhappið til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, sem gert var um leið og málið kom upp.  N1 hefur átt í góðu samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra í þessu máli frá upphafi, sem og sveitarfélagið sjálft og íbúa, og hefur leitað til færustu sérfræðinga vegna þeirra aðgerða sem farið hefur verið í og sem framundan eru.“