Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gæsahúð og tár í augun

Mynd:  / 

Gæsahúð og tár í augun

07.08.2020 - 17:28

Höfundar

Hinsegin dagar eru nú í fullum gangi en þó með öðru sniði en undanfarin ár. Venja er að hápunktur Hinsegin daga sé Gleðigangan en vegna samkomutakmarkanna verður ekki gengið í ár og verður hápunkturinn því sjónvarpsútsending þar sem hinsegin listafólk skemmtir áhorfendum.

Þau Ingileif Friðriksdóttir og Sigurður Gunnarsson verða kynnar í þættinum Stolt í hverju skrefi. Segja þau að þarna sé í raun að finna sárabót fyrir að missa af gleðigöngunni og hátíðarhöldunum sem fyrirhuguð voru á laugardaginn. Stórskotalið hinsegin listafólks kemur fram í útsendingunni og segir Ingileif að áhorfendur geta haldið partý heima í stofu þar sem tveggja metra reglan verði virt. 

Sigurður Gunnarsson segir að um skemmtidagskrá sé að ræða þó að þau ræði einni málefni hinsegin fólks. „Það þarf að gera það líka, snerta á ýmsum málum tengdum hinsegin samfélaginu og stöðu hinsegin fólks.  Það er svona smá alvarlegur undirtónn en fyrst og fremst gleði og glimmer.”

Þau Ingileif og Sigurður eru sammála um að mikill árangur hafi náðst á þeim 20 árum sem liðin eru frá því að Gleðigangan var fyrst haldin í Reykjavík. „Við erum komin ofboðslega langt síðan fyrir 20 árum. Við könnumst alveg bæði vel við það að hafa séð gleðigönguna sem krakkar. Þetta var bara partur af samfélaginu,” segir Ingileif. Þau benda einnig á að ekki megi gleyma sér því lítið mál sé að afnema þau réttindi sem þegar hafa áunnist.  „Við sjáum það í sumum löndum, til dæmis bara í Evrópu, að það er verið að taka réttindi hinsegin fólks til baka. Það er hægt að gera með einu pennastriki. Þessvegna þurfum við líka að ganga árið 2040, við þurfum að halda sýnileikanum á lofti og minna á okkur og minna á baráttuna,” segir Sigurður. 

Útsendingin hefst klukkan 19:45 á RÚV laugardagskvöldið 8. ágúst og á meðal þeirra sem koma fram eru Sigga Beinteins, Páll Óskar og Friðrik Ómar. Þau lofa einnig leynigest sem öll þjóðin þekkir. „Ég held að allir sem munu horfa á þetta fái gæsahúð og jafnvel smá tár í augun,” segir Ingileif í lokin. 

Rætt var við Ingileif og Sigurð í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Fyrstu gleðisporin tekin frá Hlemmi árið 2000

Menningarefni

Stjórn Hinsegin daga segir stöðuna vonbrigði

Innlent

Viðburðir á vegum Hinsegin daga falla niður