Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fleiri grípa til sóttvarna eftir því sem ótti eykst

07.08.2020 - 18:53
Mynd: RÚV / RÚV
Fleiri óttast nú að smitast af kórónuveirunni eftir að aðgerðir voru hertar og forðast þar af leiðandi margmenni og návígi í meira mæli. Fleirum finnst almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld gera of lítið til að bregðast við, að því er fram kemur í nýjum þjóðarpúlsi Gallups.

Ótti við að smitast af COVID-19 helst í hendur við fjölgun smita. Nærri 30 prósent óttast nú mikið að smitast, miðað við í kringum 22 prósent um miðjan júlí.

Talsvert fleiri hafa áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum af COVID eða 55 prósent. Í júlí sögðust á milli 35-40 prósent hafa áhyggjur af þeim.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Fleiri hafa tekið upp einstaklingsbundnar sóttvarnir eftir því sem áhyggjurnar aukast. Notkun á hlífðarbúnaði hefur dregist saman síðan í byrjun maí þangað til í síðustu könnun, þá segjast 25 prósent nota hlífðarbúnað eða hanska í ákveðnum aðstæðum. Þá forðast aftur fleiri óþarfa samskipti við annað fólk eða 46 prósent. Og rúm 60 prósent forðast fjölfarna staði eða fjölsótta viðburði, sem er 10 prósentustigum meira en fyrir um mánuði.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Fleirum finnst almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld vera að gera of lítið til að bregðast við faraldrinum, eða 24 prósentum, í samanburði við 15 prósent um miðjan júlí.  

Þá telja um 10 prósentum fleiri að of lítið sé gert úr heilsufarslegri hættu sem stafar af COVID eða nærri 30 prósent. Ekki er marktækur munur á trausti til almannavarna og yfirvalda milli kannana. Könnunin var gerð tuttugasta og áttunda júlí til fimmta ágúst. Rúmlega 1600 svöruðu, þátttökuhlutfall var 53 prósent. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV