Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fimm kvenleg og kyndandi fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Darkroom - My Future

Fimm kvenleg og kyndandi fyrir helgina

07.08.2020 - 00:01

Höfundar

Það eru konurnar sem eiga sviðið í Fimmunni þennan föstudaginn enda full ástæða til. Það sem er í boði er heitasta ungstirni poppheimsins með fyrsta söngul af nýrri plötu, norsk elektrópoppdrottning í bíóstuði, langheitasta teknótæfan frá Wales, írsk diskódíva með reynslu og síðast en alls ekki síst poppprinsessan af Jamaíka.

Billie Eilish - My Future

Árið í ár átti að vera hennar Billie Eilish en þessi leiðinda pest setti smá strik í reikninginn varðandi skipulagið. Nú er ekki unnt að bíða lengur og hún sendi frá sér frábært lag í vikunni sem víkkar enn hljóðheim hennar og hún er greinilega ekki á neinum förum úr poppheimum á næstunni, svona miðað við augljós gæðin sem hún mallaði fyrir okkur með Finneas bróðir sínum í þetta skiptið.


Annie - The Bomb

Það eru liðin rúmlega 10 ár frá síðustu plötu frá norsku elektró poppdrottningunni Annie sem var sjóðheit á fyrsta áratug aldarinnar. Nú er von á nýrri plötu sem kemur í október. Hún heitir Dark Hearts, er að mestu tilbúin og samkvæmt listakonunni er platan unninn eins og hljóðspor við ímyndaða bíómynd.


Kelly Lee Owens - On

Hún er sjóðheit kartafla þessa dagana hún Kelly Lee Owens sem kemur frá Wales. Ný plata er á leiðinni og virtir tónlistarmenn með klassískan bakgrunn virðast keppast við að vinna með, á nýjasta sönglinum er það John Cale og fyrir stuttu John Hopkins, en í laginu On er hún ein á ferð og virðist ekki þurfa neina aðstoð.


Róisín Murphy - Something More

Þrátt fyrir að írska Róisín Murphy hafi ekki gefið út stóra plötu síðan 2016 hefur hún verið með flottustu höfundum danstónlistar undanfarið og sent frá sér dansgólfs-neglurnar Murphy’s Law, Incapable og Narcissus. Með útgáfu lagsins Something More tilkynnti hún að þau lög fá, eins og það nýja, heimili á plötunni Róisín Machine ásamt fimm öðrum.


Koffee - Lockdown

Það stefnir allt í að poppprinsessan Koffee sem sló í gegn með laginu Toast sé að verða stærsta útflutningsvara Jamaíku síðan Bob Marley átti heiminn hérna einhvern tíma á síðustu öld. Lagið Lockdown er hennar næst nýjasta og fjallar um líf með pestinni, en fyrir forvitna þá er nýjasta lagið Pressure alveg á pari.


Fimman á Spottanum