Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Breytingar ekki gerðar nema með vilja barnsins

07.08.2020 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: Intersex
Ekki verður heimilt að gera varanlegar og óafturkræfar breytingar á kyneinkennum barna með ódæmigerð kyneinkenni, hljóti frumvarp forsætisráðherra samþykki.

Forsætisráðuneytið hefur birt á samráðsgáttinni drög að breytingum á lögum um kynrænt sjálfræði. Er frumvarpinu ætlað að koma í veg fyrir að fólk með ódæmigerð kyneinkenni gangist undir ónauðsynlegar meðferðir á kyneinkennum sínum án upplýsts samþykkis, sem og að börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni hljóti rétt til líkamlegrar friðhelgi í tengslum við kyneinkenni sín.

Einstaklingar með ódæmigerð kyneinkenni, börn þar á meðal, hafa í gegnum tíðina orðið fyrir kerfisbundinni mismunun og réttindaskerðingu í flestum ef ekki öllum löndum heims, að því er fram kemur í kynningu með frumvarpinu.

Ýmsar alþjóða- og mannréttindastofnanir hafa undanfarin ár hvatt ríki til þess að setja lög um, eða banna ónauðsynlegar meðferðir á einstaklingum með ódæmigerð kyneinkenni. Á þetta til að mynda við um óafturkræfar skurðaðgerðir og ófrjósemisaðgerðir sem eru framkvæmdar án upplýsts samþykkis.

Í frumvarpsdrögunum er kveðið á um að varanlegar breytingar á kyneinkennum barns yngra en 16 ára, sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni, skuli einungis gerðar í samræmi við vilja barnsins. Til varanlegra breytinga teljast meðal annars skurðaðgerðir, lyfjameðferðir og önnur óafturkræf læknisfræðileg inngrip

Sé barn ófært um að veita samþykki sökum ungs aldurs, eða það  getur ekki gefið vilja sinn til kynna af öðrum sökum, þá er einungis heimilt að breyta kyneinkennum þess varanlega ef heilsufarslegar ástæður krefjast.

Slíkt skal ekki gert nema að undangengnu ítarlegu mati á nauðsyn breytinganna og afleiðingum þeirra til skemmri og lengri tíma. Félagslegar, sálfélagslegar eða útlitslegar ástæður flokkast ekki sem heilsufarslegar.

Gert er ráð fyrir að heilbrigðisráðherra  skipi þverfaglegt teymi sérfræðinga um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Teymið á að veita börnum yngri en 16 ára, sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, og aðstandendum þeirra upplýsingar, ráðgjöf og meðferð í samræmi við þarfir hvers og eins.