Aukningin er verulegt áhyggjuefni, segir Katrín

07.08.2020 - 18:50
Mynd: RÚV - Freyr Arnarson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir aukningu smita vera verulegt áhyggjuefni og að líklega hafi allir orðið fyrir nokkrum vonbrigðum þegar samkomutakmarkanir voru hertar.

Fara þarf aftur til 9. apríl til þess að sjá fleiri smit en þau sautján sem greindust í gær. Þau voru fimmtán talsins 16. apríl og þrettán 1. ágúst. 

„Það er verulegt áhyggjuefni að sjá þessa þróun,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra,  „það voru aðgerðir sem tóku gildi fyrir réttri viku og það er erfitt að meta árangurinn af þeim fyrr en í raun og veru tveimur vikum síðar einfaldlega vegna meðgöngutíma veirunnar.“

Hún segir of snemmt að segja til um hvort ástandið verði svipað og það var þegar faraldurinn stóð sem hæst í mars og apríl. Hins vegar sé vitneskjan meiri nú en þá um hegðun veirunnar. Eins og sagt hafi verið áður kunni vel að koma til þess að herða þurfi á aðgerðum bæði innanlands og á landamærunum. Meta þurfi stöðuna daglega. 

Þú ræddir á ríkisstjórnarfundi í morgun um framhald skimunar á landamærum, hafa einhverjar ákvarðanir verið teknar í því efni?

„Við erum með óbreytta stöðu þar þ.e.a.s. við ætlum að halda áfram að skima, við ætlum ekki að slaka neitt á í því sem við höfum verið að gera á flugvellinum.“

Hún segir að hlutfall smitanna sem greinst hafi á landamærunum sé kannski ekki hátt. Það sé þó gríðarlega mikilvægt að greina þau svo að þau valdi ekki frekari smitum. Landamæraskimunin veiti gríðarlega mikilvæga innsýn í stöðuna. 

Margir hafa nefnt að Íslendingar hafi kannski verið farnir að slaka dálítið mikið á og verið erfitt að koma sér í þá stöðu að hugsa um tvo metrana, á það líka við um forsætisráðherrann?

Ég held að við bara öll hér á Íslandi höfum fundið fyrir ákveðnum vonbrigðum þegar aftur voru settar á samkomutakmarkanir og tveggja metra regla. En mín upplifun er sú að fólk sé að vanda sig. Ég fer nú svo sem víða um og mér finnst langflestir vera að gera það. Og það er mikilvægt ekki bara fyrir okkur sjálf heldur okkur öll.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi