20 ár frá Skerjafjarðarslysinu: „Alltaf erfiður dagur“

07.08.2020 - 18:39
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Tuttugu ár eru í dag frá mannskæðu flugslysi í Skerjafirði sem kostaði sex mannslíf. Kona sem missti son sinn í slysinu segist á hverju ári finna til með foreldrum sem bíða eftir að börnin þeirra skili sér heim eftir verslunarmannahelgi. 

Í dag var haldin athöfn til minningar um þau fimm ungmenni og flugmanninn sem fórust eftir að lítil farþegaflugvél hrapaði í Skerjafirði. Við hittum fjölskyldur tveggja drengja við minnisvarðann. „Þarna eru sólargeislarnir okkar,“ segir Kristín Dýrfjörð, móðir Sturlu Þórs Friðrikssonar.

Minnast sona

„Mér finnst mjög stutt síðan þetta gerðist í sjálfu sér. Þetta er eiginlega góður dagur minninga þótt hann hafi verið sár og vondur fyrir tuttugu árum síðan. Þetta er dagur sem maður minnist ástvinar og sonar,“ segir Hólmfríður Jónsdóttir, móðir Jóns Barkar Jónssonar.

Finnur til með foreldrum sem bíða heima

Vélin var á leið til Reykjavíkur frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. „Þetta er alltaf erfiður dagur í okkar lífi. Oft lendir hann á verslunarmannahelgi. Eiginlega er annar í verslunarmannahelgi líka alltaf dagur sem maður hefur varann á sér af því maður finnur til með öllum foreldrum sem bíða eftir börnunum sínum. Á hverju ári vonum við að það sé slysalaust. Út frá því er þetta alltaf álag,“ segir Kristín. „Á sama tíma er þetta dagur sem þú vilt muna af því þetta er síðasti dagurinn sem sonur okkar var heill. Þetta er svona tregadagur,“ segir hún jafnframt.

Opinber rannsókn leiddi í ljós að hreyfill vélarinnar hefði stöðvast vegna eldsneytisskorts. Hún skall í sjóinn í Skerjafirði. „Samfélagslega held ég að það hafi verið gert átak í því hvernig var staðið að rannsóknum að svona málum og umgjörð í kringum flugið,“ segir Kristín.

Njóta samverustunda

Mæðurnar segjast báðar hafa lært að njóta augnabliksins eftir slysið. „Raunverulega að njóta þess sem er. Það koma skaflar fyrir sem maður þarf að moka sig út úr,“ segir Hólmfríður.

„Og reynum að forgangsraða fjölskyldunni, syni og barnabörnum. Það er það sem er í forgangi hjá okkur,“ segir Kristín.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi