Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vill fá að skapa list sína í friði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV fréttir
Páll Guðmundsson listamaður á Húsafelli hefur sótt um leyfi til Borgarbyggðar til að rífa nýlegt legsteinahús sitt.

Skessuhorn greinir frá þessu. Þann fjórtánda júlí síðastliðinn úrskurðaði Héraðsdómur Vesturlands að húsið hefði ekki verið byggt samkvæmt gildu skipulagi og skyldi því fjarlægt fyrir 14. september.

Byggingarleyfi byggði ekki á lögformlegu skipulagi

Dómurinn áleit að byggingarleyfi það sem Páll hafði tvisvar fengið frá Borgarbyggð byggði ekki á lögformlegu skipulagi. Því hefði það ekki gildi. Uppbygging Páls kostaði mikla peninga og var gerð af miklum metnaði. Framkoma sveitarfélagsins hefur haft mikil áhrif á Pál að sögn Helga Eiríkssonar góðs vinar hans.

Helgi hefur lengi unnið með Páli við uppbyggingu á staðnum. Hann segir safn Páls vera lokað núna en það hafi verið fjölsótt, ekki síst af erlendum ferðamönnum.

Páll harðorður í garð sveitarstjórnarinnar

Páll er harðorður í garð byggingarfulltrúa og sveitarstjórnar Borgarbyggðar og segir að hefði þriðja umsókn hans um byggingarleyfi verið samþykkt 11. júlí hefði mátt koma í veg fyrir að dómur félli eins og raun bar vitni.

Hann segist í samtali við fréttastofu aðeins vilja fá að skapa sína list í friði. Yrði sú umsókn samþykkt þyrfti ekki að fjarlægja húsið. Hann stæði heldur ekki frammi fyrir því að þurfa að fjarlægja húsið hefði meðferð sveitarfélagsins staðist formkröfur.

Páll segir sér því nauðugur einn kostur að sækja um leyfi til niðurrifs á húsinu og nauðsynlegt að fá afgreiðslu strax svo hann nái að ljúka niðurrifinu fyrir 14. september.

Áhættan af áfrýjun er of kostnaðarsöm fyrir Pál segir Helgi Eiríksson. Framtíð safns Páls á Húsafelli er í höndum sveitarfélagsins, segir Helgi að lokum.

Væri synd ef ekki næðist samkomulag

Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri Borgarbyggðar segir að á byggðarráðsfundi 23. júlí hafi staða mála á Húsafelli verið hörmuð. Um væri að ræða nágrannadeilur sem þyrfti að sætta.

Á fundinum var lögð rík áhersla á að aðilar kæmust að samkomulagi um gerð deiliskipulags undir handleiðslu sveitarfélagsins. Þórdís sagði það vera synd tækist það ekki. Með því að sátt verði um deiliskipulagið gæti verið hægt að koma í veg fyrir að dómurinn verði fullnustaður.

Aðalskipulag á svæðinu gerir ráð fyrir landbúnaði en nú er unnið að því að ferðaþjónusta verði hluti þess. Þórdís segir sveitarfélagið viðurkenna þau mistök að gleymst hefði að senda deiliskipulagið til birtingar í stjórnartíðindum en telur ekki víst að það hefði skipt máli.

Líklegt væri að deiliskipulagið hefði samt verið dæmt ólöglegt því það hefði verið í andstöðu við aðalskipulag. Þórdís segir nú sé verið að taka skipulagsmálin í Borgarbyggð fastari tökum og laga verkferla.

Uppfært 7. ágúst 2020:

Borgarbyggð hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Hér er hún í heild: 

Árið 2018 felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi byggingarleyfi sem Borgarbyggð hafði gefið út fyrir legsteinaskála að Bæjargili í landi Húsafells þar sem umrætt leyfi væri hvorki í samræmi við landnotkunarflokk svæðisins samkvæmt skipulagsreglugerð né skilmálum Aðalskipulags Borgarbyggðar 2010-2022. Deiliskipulag sem hafði verið samþykkt árið 2015 af þáverandi sveitarstjórn fyrir Bæjargil hafði ekki tekið gildi vegna mannlegra mistaka. Deiliskipulagið var síðan fellt úr gildi árið 2018. Borgarbyggð harmar innilega þau mistök sem áttu sér stað á þeim tíma og hefur sveitarfélagið í kjölfarið hafið markvissar endurbætur á verkferlum á umhverfis- og skipulagssviði.

Á Húsafellstorfunni í dag er ekki mikið um byggingar sem nýttar eru til landbúnaðarnota, en ferðaþjónusta og menningartengd starfsemi eru hins vegar fyrirferðamikil á svæðinu og því mikilvægt að breyta skipulaginu þar eins og lög kveða á um. Það er mat sveitarfélagsins að hagsmunir allra aðila máls séu þeir að landnotkun afmarkaðs svæðis á Húsafelli verði breytt. Í nýja skipulaginu verður gert ráð fyrir fjölbreyttri verslun og þjónustu auk frístundabyggðar. Vinna við breytingartillögu á aðalskipulagi afmarkaðs hluta Húsafellsvæðisins er hafinn í samráði við báða aðila máls og aðra landeigendur á svæðinu.

Breytingar á aðalskipulagi er langt ferli en þann 21. júlí s.l. rann út frestur til að koma með ábendingar við verkefnalýsingu fyrir tillögu að breyttu aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010- 2022. Nú hefur vinna við breytingartillöguna sjálfa við aðalskipulagið hafist og er í ákveðnu ferli. Aðalskipulagsbreytingin tekur gildi þegar sveitarstjórn hefur samþykkt tillöguna og hún hefur verið staðfest af Skipulagsstofnun. Að svo stöddu er ekki vitað hvernig þessar tillögur verða afgreiddar eða hvernig þær líta nákvæmlega út að ferli loknu.

Þegar sveitarstjóri kom til starfa í mars s.l. var með hans fyrstu verkum, ásamt forseta sveitarstjórnar, að koma að samtölum við báða málsaðila dómsmálsins sem þá var yfirstandandi. Báðir aðilar virtust sýna vilja til sátta og var það von Borgarbyggðar að málið yrði leyst og í kjölfarið fellt niður. Það voru því mikil vonbrigði að það hafi ekki náðst en nokkuð langt virtist bera á milli aðila þrátt fyrir þessar sáttaumleitanir.

Borgarbyggð harmar þá stöðu sem komin er upp varðandi fyrirkomulag bygginga á Húsafelli. Þegar vinna við aðalskipulag hófst var rætt við aðila máls með það að leiðarljósi að hægt væri að vinna nýtt deiliskipulag samhliða breytingum á aðalskipulagi og þar með flýta málsmeðferð umsókna beggja aðila um byggingarleyfi. En á meðan aðalskipulag samræmist ekki landnotkun og deiliskipulag er ekki í gildi á svæðinu getur sveitarfélagið ekki gefið út byggingarleyfi. Nú hefur sveitarstjóri tekið aftur upp samtalið við málsaðila um að koma að sameiginlegu deiliskipulagi sem yrði unnið í sátt aðila. Borgarbyggð hefur boðist til þess að hafa milligöngu um og greiða fyrir gerð og undirbúningsvinnu vegna sameiginlegs deiliskipulags til að liðka til í málinu. Það er öllum til hagsbóta að vinna að sameiginlegri uppbyggingu á þessu fallega og menningarríka svæði hér í Borgarbyggð.