Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Víðir Reynisson reyndist neikvæður eftir sýnatöku

06.08.2020 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, fór í sýnatöku við kórónuveirunni í morgun sem skýrir fjarveru hans frá upplýsingafundinum í dag. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Niðurstaðan úr sýnatökunni fékkst síðdegis í dag og reyndist Víðir neikvæður.

Jóhann segir að Víðir hafi gert allt rétt. Eins og kannski mátti búast við. „Hann hafði samband við allt sitt samstarfsfólk, lét vita að hann myndi ekki mæta til vinnu og óskaði eftir að fara í sýnatöku.“

Einkennin sem Víðir var með voru hálssærindi og höfuðverkur. Hin úr svokallaða þríeykinu, Alma og Þórólfur, voru upplýst um stöðu mála sem og aðrir sem koma að vörnum og viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum. Sem er býsna stór hópur.

Jóhann segir vel gætt að sóttvörnum hjá teyminu, fundað sé í stóru herbergi hjá embætti landlæknis þar sem vel sé hægt að viðhafa tveggja metra regluna og allir séu í hálfgerðri úrvinnslusóttkví.

Mikið hefur mætt á þríeykinu frá því faraldurinn fór af stað í vor og þau varla fengið frí þótt þau sjáist ekki alltaf skjánum.  Það á vafalítið ekki eftir að breytast því það verða upplýsingafundir daglega næstu daga, meðal annars á föstudag, laugardag og sunnudag.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV