Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Við munum örugglega fá svona hópsýkingu aftur“

06.08.2020 - 21:39
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, er bjartsýnn á að það takist að ráða niðurlögum hópsýkingarinnar sem hefur blossað upp. Ný smit séu þó að greinast hér og þar sem bendi til þess að veiran hafi borist víða.

4 ný innanlandssmit greindust í gær hér á landi. 3 voru á höfuðborgarsvæðinu en eitt á Vesturlandi. Þrír voru þegar í sóttkví.  Enginn er á sjúkrahúsi og aðeins einn hefur þurft að leggjast inn í þessari „nýju bylgju“. 

Þórólfur segir þetta algjört lykilatriði og muni leika stórt hlutverk í þeirri ákvörðun hvort hörðum samfélagslegum aðgerðum verður beitt. 

Hann segist bjartsýnn á að það takist að ráða niðurlögum þessarar hópsýkingar á meðan ekki sé mikil aukning í sýkingum „Að þá held ég að, í rólegheitunum og með tímanum takist okkur að kveða þetta niður. En við munum örugglega fá svona hópsýkingu aftur vegna þess að verður alltaf einhver leki í gegnum landamærin. Við erum samt að lágmarka þá áhættu með skimun á landamærunum.“ 

Víða um Evrópu hafa yfirvöld áhyggjur af fjölgun smita. Þórólfur segir að þetta hafi verið viðbúið. Um leið og fólk fór að slaka á hafi smitleið veirunnar aukist. „Þetta er ekkert flókið. Ef við pössum okkur ekki þá á veiran auðvelt með að smitast.“

Ýmsum tölum hefur verið hent á loft í umræðunni síðustu daga. Ein tala er svokallað nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa. Stjórnvöld í mörgum löndum horfa til þessarar tölu þegar þau ákveða hvaða lönd séu skilgreind sem hááhættusvæði.

Ísland er með mjög háa tölu um þessar mundir og hefði til að mynda átt að lenda á „rauðum lista“ hjá norskum yfirvöldum en slapp í gegnum nálaraugað.

Þórólfur segist hins vegar alveg reikna með að Ísland verði sett á lista yfir hááhættusvæði og reiknar frekar með því heldur en hitt. Þetta sé þó ekkert sem hann er að velta sér upp úr.

Önnur tala er hinn svokallaði R-stuðull sem er notaður til að reikna út hversu margir smitast út frá einu tilfelli.  Í Danmörku hefur sóttvarnastofnunin gefið það út stuðulinn sé kominn yfir einn og að það valdi þeim áhyggjum. 

Þórólfur segir að stuðullinn núna hér á landi sé örugglega svipaður og hann var í byrjun faraldursins í vor eða tveir til þrír. „Þá voru mörg tilfelli að koma inn á sama tíma og þá virtist stuðullinn vera hár. Hann hefur ekki verið reiknaður út sérstaklega núna. Við þurfum að bíða eftir fleiri tilfellum til að geta reiknað það.“ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV