Ungir kylfingar í toppbaráttunni

Mynd með færslu
 Mynd: [email protected] - Golf.is

Ungir kylfingar í toppbaráttunni

06.08.2020 - 14:25
Tómas Eiríksson Hjaltested, úr GR, og Aron Snær Júlíusson, GKG, eru með forystu í karlaflokki eftir fyrsta hring Íslandsmótsins í golfi sem fram fer á Heiðavelli í Mosfellsbæ. Tómas er aðeins 18 ára gamall en þá koma tveir tvítugir kylfingar næst á eftir efstu mönnum.

Tómas, sem er nýorðinn 18 ára, var á pari eftir fyrri holurnar níu eftir að hafa fengið einn fugl og einn skolla. Hann fékk þá fugl á þremur holum í röð frá þeiri tólftu til þeirrar fjórtándu en fór aðrar holur á pari. Hann er því á þremur höggum undir pari eftir fyrsta keppnisdaginn.

Hinn 23 ára gamli Aron Snær fékk par á fyrstu fjórum holum vallarins en skramba á þeirri fimmtu. Þrír fuglar á næstu fjórum holum þýddu að hann var höggi undir þegar hringurinn var hálfnaður. Hann var þá á tveimur undir pari eftir skolla á tíundu braut og örn á þeirri tólftu en fugl á lokaholunni þýddi að hann er á þremur undir parinu, rétt eins og Tómas.

Rúnar Arnórsson, úr Keili, var lengi vel í forystu á mótinu í dag þar sem hann fékk fimm fugla á 4.-12. braut vallarins eftir að hafa fengið skolla á fyrstu holu. Hann var því á fjórum undir pari eftir tólftu brautina en tveir skollar á síðustu þremur holunum þýddu hins vegar að Rúnar lauk hringnum á tveimur höggum undir pari. Hann er því í þriðja sæti ásamt tveimur tvítugum kylfingum, heimamanninum Sverri Haraldssyni úr GM og Viktori Inga Einarssyni úr GR.

Fjölmargir kylfingar eiga enn eftir að ljúka hringnum í dag og getur staðan því breyst. Fyrstu kylfingar í kvennaflokki hófu þá keppni upp úr klukkan 14 í dag.

Staðan í mótinu er uppfærð í rauntíma hér.