Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

TikTok ætlar að setja upp gagnaver á Írlandi

06.08.2020 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd: EPA - EPA-EFE
Kínverski samfélagsmiðillinn TikTok hyggst setja upp fyrsta evrópska gagnaver sitt á Írlandi. Það mun hýsa gögn frá evrópskum notendum og er ráðgert að uppbyggingin kosti 500 milljónir bandaríkjadala.

Fyrirtækið segist hefja starfsemi innan 18 til 24 mánaða og að það muni skapa hundruð nýrra starfa. Það segir ekki hvar gagnaverið á að rísa.

Hingað til hafa öll gögn notenda verið hýst í gangaverum í Bandaríkjunum en afrit hýst í Singapúr. Þetta kemur fram á vef BBC.  Móðurfyrirtækið, ByteDance, er nú í viðræðum við Microsoft um að selja hluta fyrirtækisins á bandarískum, kanadískum, áströlskum og ný-sjálenskum markaði.

Endurskoða „ritstjórnarstefnu“

Í fréttatilkynningu frá TikTok frá því í gær segir að fyrirtækið innleiði nú endurskoðaða stefnu um hvað teljist afvegaleiðandi efni (e. misleading content) sem eigi að varpa betur ljósi á hvað sé leyfilegt og hvað ekki á TikTok. Forritið hefur verið gagnrýnt fyrir að hafa mikla innbyggða ritskoðun í algrími forritsins og fyrir að fylgjast í meira mæli með notendum en mörg önnur vinsæl forrit.

Í tilkynningu segir jafnframt að fyrirtækið sé í samskiptum við Innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna um hvernig best sé að vernda vettvanginn fyrir erlendum áhrifum.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, lýsti því yfir fyrir nokkrum dögum að hann vildi banna notkun TikTok í Bandaríkjunum á þeim grundvelli að kínverskt eignarhald þess ógni þjóðaröryggi Bandaríkjanna. 

Stjórnendur Microsoft slógu yfirstandandi viðræðum á frest eftir að tíðindi bárust af fyrirætlunum forsetans en þær eru hafnar að nýju.