Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þetta er áskorun, segir bæjarstjórinn í Reykjanesbæ

06.08.2020 - 17:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Eitt af hverjum tíu ungmennum á Suðurnesjum var hvorki í vinnu né skóla árið 2018 og mældist það hæsta hlutfallið á landinu. Þetta kom fram í tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir að gripið hafi verið til fjölbreyttra aðgerða til að efla stöðu ungs fólks á svæðinu og er bjartsýnn á árangurinn.

Í tölum Hagstofu kemur meðal annars fram að þetta ár hafi 9,6% ungmenna á Suðurnesjum hvorki verið í vinnu né skóla, en hlutfallið fyrir landið allt var 6,6%. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að erfitt sé að nefna eitthvað eitt sem geti valdið þessu, en íbúasamsetningin hafi líklega talsverð áhrif.

 „Mjög hátt hlutfall íbúa Reykjanesbæjar og Suðurnesja er af erlendu bergi og það er þekkt að börn og ungmenni af öðru þjóðerni hafa átt erfitt með að fóta sig í námi á framhaldsskólastigi meðal annars vegna ekki nægilega góðrar kunnáttu í íslenskri tungu,“ segir Kjartan.

Þetta gerist ekki í einni svipan

Hann segir að um fjórðungur íbúa svæðisins sé af erlendum uppruna af um 90 þjóðernum. Í skólakerfinu þar séu töluð um 30 tungumál. „Þetta er fjölmenningin og fjölbreytileikinn eins og hann gerist mestur og bestur. Og það er bara áskorun fyrir hvern sem er að ná og þjónusta og gera þessum hópi jafnhátt undir höfði og við þurfum að gera. Við erum að leita leiða og við erum með mörg verkefni , þetta gerist ekki í einni svipan á framhaldsskólastigi. Þetta er miklu lengra ferli sem hefst um leið og börn og ungmenni flytjast til landsins.“

Kjartan segir að meðal þess sem Reykjanesbær hafi lagt áherslu á sé að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi. „Ég er sannfærður um það að öll þessi góðu verkefni sem eru í gangi muni skila okkur árangri og hlakka bara til að sjá næstu úttekt þegar hún liggur fyrir,“ segir Kjartan.