Opna tívolí á Akureyri undir eftirliti yfirvalda

06.08.2020 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson
Heilbrigðisyfirvöld ætla að fylgjast vel með tívolí sem stefnt er að verði opnað á Akureyri í kvöld og verði opið um helgina. Tækin voru flutt inn frá Bretlandi fyrir verslunarmannahelgina, en ekki var hægt að opna þá vegna hertra samkomutakmarkana. Framkvæmdastjórinn segir að sóttvarnir verði tryggðar.

Tívolíið er í umsjón breskra aðila sem hafa komið reglulega hingað til lands síðustu ár. Það átti að skemmta íbúum og gestum á Akureyri um verslunarmannahelgina, en eftir að hert var á takmörkunum í síðustu viku vegna kórónuveirufaraldursins var opnun slegið á frest. Hins vegar er stefnt á að opna í kvöld og þegar fréttastofu bar að garði fyrir neðan Samkomuhúsið í morgun var unnið af krafti að gera allt klárt.

Kain Taylor, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að búið sé að fá áætlun samþykkta frá yfirvöldum til þess að tryggja sóttvarnir og tveggja metra regluna á svæðinu. Það sé grundvöllur þess að talið sé óhætt að opna núna. Þá ætla yfirvöld að hafa svæðið undir eftirliti svo tryggt sé að allt verði samkvæmt reglum.

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson
Frá tívolísvæðinu í morgun.

Meðal annars verður svæðið vel girt af, einstefna höfð í gegn og fólki aðeins leyft að dvelja í takmarkaðan tíma. Stefnt er að því að 70 manns geti verið í einu og fólk beðið um að virða reglur, annars verði því vísað frá.

„Ef fólk virðir ekki reglurnar, þá verður það beðið að fara. Vonandi þarf ekki að grípa til þess, og ég er viss um að Íslendingar láti það ekki gerast,“ segir Taylor.

Stefnt er að því að tívolíið verði opið fram á sunnudag, en Taylor vonast til að aðsóknin verði það góð að hægt sé að hafa opið áfram í næstu viku.

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson
Frá tívolísvæðinu í morgun.

Hann segir fyrirtækið hafa vissulega tapað á því að geta ekki haft opið um verslunarmannahelgina, en hátíðarhöldin séu ástæða þess að tækin voru flutt til landsins. Hins vegar sé synd að pakka saman án þess að Íslendingar hafi fengið að skemmta sér.

„Það er synd að vera hér og geta ekki leyft Íslendingum að skemmta sér.“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi