Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ökumenn hunsa hraðatakmarkanir á nýmalbikuðum vegum

06.08.2020 - 22:39
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Hraðatakmarkanir á nýmalbikuðum vegköflum eru endurtekið virtar að vettugi. Þetta segir fræðslufulltrúi Samgöngustofu. Malbik var endurnýjað á nokkrum stöðum í grennd við höfuðborgina í kjölfar umferðarslyss á Kjalarnesi í sumar.

„Við erum náttúrulega með alveg skelfilegt dæmi um afleiðingar, en það skal skýrt tekið fram að það er ekkert sem bendir til þess að of hraður akstur hafi verið uppi á Kjalarnesi. Það er ekkert sem bendir til þess að ökumenn hafi farið þar ógætilega. Það er mjög undarlegt að við skulum ekki líta okkur nær og bera ábyrgð.“ segir Einar Magnús Magnússon sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu.

Kostar skilding að aka of hratt

Hann segir að í langflestum tilfellum hunsi ökumenn tilmæli um að lækka hraða við framkvæmdasvæði. Það ógni öryggi þeirra sem séu þar við störf og valdi tjóni á nýlögðum vegum. Vegagerðin mælir viðnám vega eftir að malbikið er lagt á þá. Mislangur tími getur liðið þar til óhætt þykir að hækka leyfilegan hámarkshraða. Rigning getur haft mikil áhrif á viðnámið. 
Einar segir viðurlög við hraðakstri geta tekið sinn toll.

„Það er ágætt fyrir fólk að hafa það í huga að ef þú ekur á svæði þar sem er 50 km hámarkshraði leyfður og þú ekur á 80 þá er það 50.000 króna sekt og einn punktur í ökuferilsskrá. Ef þú ert á 90 þá er það 70.000 króna sekt og þrír punktar í ökuferilsskrá. Sem sýnir að þetta er litið mjög alvarlegum augum og þetta er í rauninni ofsaakstur undir þessum kringumstæðum.“ segir Einar.

Finna fyrir pressu að aka hraðar

Hann segir þá sem virða takmarkanir á vegköflunum finna fyrir þrýstingi frá öðrum ökumönnum, til að mynda þar sem tvær akreinar eru í sömu átt og önnur akreinin er nýmalbikuð en ekki hin.

„Það er meira að segja stundum  þannig að það sé pressað á menn að auka hraðann og það getur ekki verið að viðkomandi hafi ekki tekið eftir hraðatakmörkuninni. Ef henni er þannig háttað að ökumenn taka ekki nógu vel eftir henni þá þurfa framkvæmdaaðilar að bæta þar úr hvað það varðar.“ segir Einar.