Óháð úttekt á rafmagnsleysi og starfsmanni heilsast vel

06.08.2020 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Óháð úttekt er hafin á því hvað olli víðtæku rafmagnsleysi í Eyjafirði og nágrenni í gær þegar skammhlaup varð í tengivirki. Tjón virðist vera óverulegt samkvæmt Landsneti og starfsmaður sem var fluttur á sjúkrahús er kominn heim.

Rafmagnslaust varð frá Siglufirði, um allan Eyjafjörð og austur í Fnjóskadal eftir að skammhlaup varð í tengivirki á Rangárvöllum ofan Akureyrar laust fyrir klukkan ellefu í gærmorgun. Rafmagn var alls staðar komið á innan þriggja klukkustunda. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir engar fregnir hafa borist þeim af tjóni. Nú sé verið að bregðast við stöðunni, en fyrstu greiningar í gær bentu til þess að mannleg mistök við viðgerðarstörf hafi ollið skammhlaupinu.

„Það er komin í gang óháð úttekt. Þetta er standard sem við förum í þegar atvik eins og þetta gerist. Hvað nákvæmlega gerðist mun bara koma í ljós við þessa úttekt. Sem betur fer urðu ekki miklar skemmdir á búnaði í tengivirkinu og strax í gær þá náðum við að klára að hreinsa og gera við. Og við höfum ekki heyrt af neinu tjóni, sem betur fer,“ segir Steinunn.

Einn starfsmaður var fluttur á sjúkrahús eftir atvikið í gær. Steinunn segir hann ekki hafa fengið í sig straum en var nærri þegar skammhlaupið varð.

„Sem betur fer þá slasaðist hann ekki alvarlega. Hann var á sjúkrahúsi í nótt, undir eftirliti, og hann er kominn heim. Við erum búin að heyra í honum í morgun og honum heilsast vel. Þetta fór betur en á horfðist, sem betur fer,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi