Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óásættanlegt að umferðaröryggi hafi ekki verið bætt

06.08.2020 - 23:02
Faðir sjö ára stúlku á Akureyri sem ekið var á á Hörgárbraut í vetur segir að kergja sé í fólki yfir því að umferðaröryggi við götuna hafi ekki verið bætt. Skólarnir fari að byrja og börnin þurfi að vera örugg. Fulltrúi Akureyrarbæjar segir hraðamyndavélar vera í stillingu.

Mikill umferðarþungi er á Hörgárbraut sem er hluti af þjóðveginum í gegnum Akureyri. Á hluta brautarinnar er íbúabyggð beggja vegna götunnar og því mikil umferð gangandi fólks. Þá þurfa börn úr Holtahverfi yfir Hörgárbrautina í skóla.

Ekið á hana á leið heim frá vinkonu

Vilborg  Freyja Ásmundsdóttir, 7 ára, fór í febrúar, ásamt foreldrum sínum í mat til Langömmu sinnar. Hún varð síðan eftir í heimsókn hjá vinkonu á meðan foreldrar hennar fóru heim, en þau búa rétt handan Hörgárbrautar. Skömmu síðar hélt Vilborg heim en á leið yfir Hörgárbrautina var ekið á hana.

„Hálftíma eftir að við vorum komin heim þá sé ég bara að það byrjar að hrannast upp traffík fyrir utan stofugluggann, þá byrja ég að kíkja út og sé að það hafði verið keyrt á hana“ segir Ásmundur Kristjánsson, faðir Vilborgar Freyju. Hann segir næstu mínútur í móðu, hann hlaupi út og þá sé komið fullt af fólki á staðinn og búið að hringja á sjúkrabíl. 

Lá inni á sjúkrahúsi í þrjár vikur

Vilborg Freyja slasaðist alvarlega, þríbrotnaði á kjálka, ásamt að brjóta mjaðmagrind, lærlegg og viðbein. Þá fór annað augað í lömunarstöðu. Hún lá inni á sjúkrahúsi í þrjár vikur en þá tók við hvíld heima við. Ásmundur segir bataferlinu þó hvergi nærri lokið og Vilborg sé í sjúkraþjálfun núna. Þetta var fjórða alvarlega slysið á Hörgárbrautinni á undanförnum árum þar sem ekið er á gangandi vegfarendur og íbúar hafa ítrekað kallað eftir aðgerðum.

Sjá einnig: „Við viljum ekki að neinn gangi þarna yfir“

Myndavélarnar í stillingu hjá framleiðenda

Í kjölfar slyssins samþykkti Akureyrarbær í samstarfi við Vegagerðina að ráðast í fimm aðgerðir, strax á þessu ári, til að lækka umferðarhraða. Meðal annars að setja upp hraðamyndavél og bæta merkingar. Enn bólar lítið á úrbótum en samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbæ er búið að kaupa hraða- og rauðljósamyndavélar sem eru enn í stillingu hjá framleiðanda í Þýskalandi. Meðfram uppsetningu á þeim verði farið í aðrar aðgerðir á svæðinu. Ekki fengust svör við því hvort það myndi gerast fyrir skólabyrjun.

Sjá einnig: Undirgöng ekki raunhæf við Hörgárbraut

Fólk vill að börnin sín séu örugg

Ásmundur segist svekktur yfir því að lítið sé búið að gerast frá því aðgerðum var lofað í vor. Hann viti að hlutirnir geti tekið tíma en það séu býsna margir mánuðir liðnir frá slysinu. „Það er algjörlega óásættanlegt, það er korter í að skólarnir byrji og það er kergja í fólki, það vill að hlutirnir séu lagaðir og börnin séu örugg“ segir hann.