Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ný íslensk tónlist í eyrun

Mynd: Amadabama / Amadabama

Ný íslensk tónlist í eyrun

06.08.2020 - 18:00

Höfundar

Þrátt fyrir að íslenskir tónlistarmenn geti ekki haldið tónleika þessa dagana þá geta þeir svo sannarlega sent frá sér tónlist eins og sérlega langur Undirölduþáttur ber vitni um þennan fimmtudag.

Amabadama - Ekkert svar

Tríóið hressa Amabadama hefur sent frá sér lagið Ekkert svar sem var tekið upp í stúdíó History í miðju samkomubanni. Daginn eftir upptöku lagsins fór söngkonan Salka í tveggja vikna sóttkví þannig að þeim fannst tilvalið að gefa það út núna þegar samkomubannið er að skella á okkur aftur.


Pétur Örn Guðmundsson - This Man

Bakraddaprinsinn Pétur Örn Guðmundsson hefur sent frá sér lagið This Man þar sem hann syngur auk þess að leika á kassagítar, hljóðgervla og banjó. Með honum í laginu eru Haraldur V. Sveinbjörnsson á Rhodes-píanó, Unnur Birna Björnsdóttir á fiðlur, Einar Þór Jóhannsson á rafgítar, kassagítar og bassagítar auk Ólafs Hólm á trommur.


Eyþór Ingi og Lay Low - Aftur heim til þín

Eyþór Ingi og Lay Low hafa sent frá sér glæ­nýtt lag sem heit­ir Aft­ur heim til þín, en þetta er í fyrsta skipti sem þau gefa út lag sam­an. Nína Richter samdi text­ann og grunn­inn að lag­inu ásamt Baldri Hjör­leifs­syni en textinn endurspeglar ástandið í samfélaginu í skugga Covid.


Halli Gunnar - Riverside Fun

Riverside Fun er tekið upp af Haraldi G. Ásmundssyni og vinum á Íslandi og í Danmörku. Hver spilaði inn sitt hljóðfæri í sínu umhverfi, þannig að í raun hittist enginn meðan á upptökuferlinu stóð, en lagið hljóðblandaði Karl Þorvaldsson.


Stebbi Hilmars - Súkkulaði og sykur

Súkkulaði og sykur er er kalóríuríkur ástaróður Stefáns Hilmarssonar þar sem söguhetjan syngur „veðrið er gott, sólin skín og þú ert mín“ en lagið sendi hann frá sér í vikunni.


Herbert Guðmundsson - Lífið

Söngvarinn og tónlistarmaðurinn sem getur ekki gengið í burtu Herbert Guðmundsson hefur sent frá sér lagið Lífið sem fjallar um... lífið. Með honum í laginu eru þeir Svanur Herbertsson á hljómborð, Pétur Örn Guðmundsson syngur bakraddir, Róbert Þórhallsson spilar á bassa, Magnús Örn Magnússon á trommur og Vignir Snær Vigfússon á rafgítar.


Myrkvi - Crossroads

Crossroads er fjórða lag tónlistarmannsins Myrkva og annað lagið sem er gefið út af Sony Music. Myrkvi hefur komið inn í íslensku tónlistarsenuna af miklum krafti og hlustendur þekkja vel hans fyrsta lag Sér um sig sem náði 2. sæti á Vinsældalista Rásar 2.


Sin Fang ft. JFDR - Lost Girls

Síðustu vikuna í júlí sendi Sin Fang eða Sindri Már Sigfússon út lagið Lost Girls þar sem hann vinnur með Jófríði Ákadóttir úr Samaris og Pascal Pinon. Lagið sem þau gera heitir Lost Girls og er lágstemmd rafballaða.


Holdgervlar - Eiturveitur

Holdgervlar eru fyrsta bandið sem undirheimaútgáfan Myrkfælni sendir frá sér en útgáfufyrirtækið var stofnað 2017 af Sólveigu Matthildi úr Kælunni miklu og Kinnat Sóleyju. Eiturveitur verður að finna á breiðskífu sem Holdgervlar senda frá sér í haust og heitir Gervihold.


Doddi - Casablanca

Eitt af nokkrum hliðarsjálfum útvarpsmannsins Þórðar Helga Þórðarsonar er tónlistarmaðurinn Doddi sem er náskyldur veislustjóranum Dodda Litla og poppstjörnunni Love Guru. Nú jæja, smá ruglingslegt og þannig vill Doddinn hafa það því hann hefur sent frá sér fjórar útgáfur af 80's slagaranum Casablanca - Italo disco, Dark Wave, Techno og EDM.


Grasasnarnir - Unaðsstundir ástarinnar

Borgarfjarðarbandið Grasasnarnir hafa síðustu misseri unnið að verkefni sínu sem þeir kalla John Prine Project og er tileinkað tónlistarmanninum John Prine. Þar eru lög hans eru sungin á íslensku og ensku, en nýjasta lagið af plötunni er lagið Unaðsstundir ástarinnar.


Hvanndalsbræður - Vinir

Hljómsveitin Hvanndalsbræður er nýverið komin úr hljóðveri og tók þar upp sína áttundu hljómplötu. Lagið Vinir er fyrsta lag sem er skotið tilbúnu úr masteringarvél Bassa Ólafssonar sem tók upp plötuna í Tónverki í Hveragerði. Áætlað er að platan komi út í heild sinni í september 2020.


Geirfuglarnir - Fálkinn

Grínsveitin Geirfuglarnir gáfu út plötuna Hótel Núll á dögunum, þá fyrstu frá þeim í meira en áratug, en lagið Fálkinn er einmitt tekið af henni.