Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Norræna flutningamannasambandið gagnrýnir Icelandair

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Norræna flutningamannasambandið (NTF) gagnrýnir harðlega framgöngu Icelandair í garð Flugfreyjufélags Íslands. Í tilkynningu sem sambandið sendi frá sér í dag furðar það sig á því að Icelandair hafi tilkynnt um uppsagnir flugfreyja með stuttum fyrirvara og að flugmenn myndu ganga í þeirra störf.

Í tilkynningunni lýsir sambandið óánægju sinni yfir þeim aðferðum sem flugfélagið hefur beitt í samningaviðræðum við flugfreyjur og flugþjóna og minnir á að starfsmenn á einu sviði ættu aldrei að vera notaðir til að grafa undan störfum annarra starfsmanna. Þá eru forsvarsmenn Icelandair hvattir til að vinna að því að bæta vinnuumhverfi starfsmanna og stuðla að trausti innan félagsins.

Evrópskir flutningamenn sammála þeim norrænu  

Fréttastofa greindi frá samskonar yfirlýsingu frá Evrópska flutningamannasambandinu (ETF) og félagi flugmanna innan sambandsins í síðustu viku. Þar kemur fram að sambandið hafi fylgst náið með þróun mála í kjaraviðræðum Flugfreyjufélags Íslands við Icelandair og „aðgerðum félagsins til að koma í veg fyrir lögmæta mótstöðu flugfreyja við nýjum og verri samningi“. Flugmenn innan ETF gagnrýna þar sérstaklega starfsbræður sína á Íslandi fyrir að hafa ekki hafnað því að þeir myndu ganga í störf flugfreyja.

Formaður FÍA vill ekki tjá sig

Fréttastofa náði loksins tali af Jóni Þór Þorvaldssyni, formanni Félags atvinnuflugmanna (FÍA), í gær eftir ítrekaðar tilraunir. Hann sagðist ekki vilja tjá sig um ummæli starfsbræðra sinna í nágrannaríkjunum.