Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leiðrétta þarf afurðaverð til bænda

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda er það lægsta í Evrópu og hefur lækkað talsvert að raungildi undanfarin ár.

Þetta sýna gögn sem Landssamtök sauðfjárbænda tóku saman. Þau byggja á skýrslu frá Evrópusambandinu þar sem fram kemur að rúmenskir bændur fá minnst allra innan sambandsins eða um 485 íslenskar krónur á kílóið.

Verð til íslenskra bænda haustið 2019 var með viðbótargreiðslum 468 krónur fyrir kíló. Árið 2013 var verðið tæpar sex hundruð krónur. Landssamtökin segja líka að verð á lambakjöti til neytenda hafi ekki fylgt almennri verðlagsþróun frá árinu 2014.

Að þeirra sögn hefur verðlag hækkað um 12,7 af hundraði en lambakjötið aðeins sem nemur 2,7%. Verð á sauðfjárafurðum er frjálst á öllum sölustigum.

Hluti bænda af því nemur 37 prósentum en til samanburðar fá bændur í nágrannalöndunum að jafnaði 45-50% í sinn vasa. Samtök sauðfjárbænda krefjast þess að afurðaverðið verði leiðrétt.

„Það er alveg ljóst að afurðastöðvarnar þurfa að hækka til okkar verðið sem þarf þá að koma fram í smásöluverðinu. Jafnframt teljum við að milliliðirnir séu að taka stærri hluti af kökunni en eðlilegt er,” segir Unnsteinn Snorri Snorrason framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda.

Tillaga sauðfjárbænda er að haustið 2021 verði afurðaverð sambærilegt og árið 2013.