„Í sumar höfum við ekki heyrt eitt aukatekið orð“

Mynd: Aðsend mynd - Nína Harra / Aðsend mynd - Nína Harra

„Í sumar höfum við ekki heyrt eitt aukatekið orð“

06.08.2020 - 09:20

Höfundar

„Vegna staðsetningar skálans hér í botnum svæðis sem er svo kallað Emstrur, sem dregur nafn sitt af erfiði og amstri, hefur talstöðvasamband alltaf verið slitrótt og erfitt því okkur var vandlega troðið hér í brekku utan þjónustusvæðis. Í sumar höfum við ekki heyrt eitt aukatekið orð.“ Listamennirnir Smári Róbertsson og Nína Harra gefa hlustendum Sumarmála á Rás 1 innsýn í líf sitt sem skálaverðir í Emstrum.

Nína Harra og Smári Róbertsson skrifa: 

Árás!

Á rás fjörutíu og tvö;

V-H-F talstöðvarás fjallaskála ferðafélag Íslands á Laugaveginum, höfum við ekki heyrt bofs.

Vegna staðsetningar skálans hér í botnum svæðis sem er svo kallað Emstrur, sem dregur nafn sitt af erfiði og amstri, hefur talstöðva samband alltaf verið slitrótt og erfitt því okkur var vandlega troðið hér í brekku utan þjónustusvæðis. Í sumar höfum við ekki heyrt eitt aukatekið orð, bara einstaka skruðninga sem gefa til kynna að eitthver sé á línunni. Einu ummerkin eru rautt ljós á talstöðinni og suð sem fylgir svo almennum takti stutts samtals milli tveggja.

Þegar suðið kemur sperrir maður eyrun eins og maður pírði augun á ruglaða stöð án áskriftar eða afruglara og ræðst svo á þessar kræsingar rétt utan seilingar með hugmyndaflugið eitt að vopni. Ég man hvernig, ef maður rembdist nógu og mikið, að manni fannst maður nokkurn veginn ná að greina sögu úr hversdagslegri óhlutstæðri litadýrðinni sem manni bar fyrir sjónir. Ég man hvernig ég gat sannfært mig um það með einbeittum vilja að ég væri farinn að skilja dulkóðun ruglaðra stöðva og hvernig, eftir nokkurn tíma starandi á þetta, þyrfti aðeins um það bil sömu einbeitingu og að lesa texta á útlensku með takmörkuðum skilningi á tungumálinu.

Sögu skýjamynda ruglaðra hliðrænna útsendinga er svo undir hverjum og einum komið að túlka og er mjög ólíklegt að tveir komist að sömu niðurstöðu um örlög ruglaðra karaktera eða hvort sagan sé yfirhöfuð á enda. Svo getur vel verið að óljósar útlínur þess sem maður hafi stimplað sem söguhetju sé bara lampi eða einhvers konar stofustáss í sviðsmyndinni.

Stari á óljósar útlínur vera og vætta öræfanna

Á göngu um hálendið er ég aftur kominn fyrir framan ruglaða sjónvarpstöð án áskriftar nema hér stari ég í bergmyndanir og mosa á óljósar útlínur vera og vætta öræfanna. Hér greini ég þó ekki sögu þeirra út frá línulegri dagskrá heldur eru þær skoðað sem svipmyndir, skjáskot gripinn af sólarupprás eða jaðarskynjun tímabundinnar taugaveiklunar einsemdar. Að einhverju leiti sé ég þetta sem vinnuna mína, sem listamaður, að tæla þýðingu úr engu eða undirstrika og kortleggja mögulega merkingu hálf-formlausra fyrirbæra. Að sjá andlit í stokkum og steinum. En í þessum skilningi finnst mér þessi eiginleiki helst einkenna hlutverk góðs áhorfenda.

Persónulega finnst mér mjög margir, bæði áhorfendur og listamenn, fóstra sérkennilegan en þrautseigan undirliggjandi misskilning gangvart list. Skýrasta birtingamynd þessarar nálgunar er krafa um skilgreinda þýðingu verka, en einnig má sjá glitta í þessa hugsun í meinlausum spurningum um meginhugmyndir eða þemu listamannsins. Einhversstaðar lærir fólk að list skuli fúnkera að einhverju leiti á rökfræði flókins tungumáls eða samsvarandi merkingatækni. Ég álasa svo sem engum að nálgast list á þennan veg og hef ég sjálfur reynst sekur um þessa afstöðu ómeðvitað þar sem hún er á einn eða annan veginn gegndræp.

Svo er þetta nú yfirleitt ekki af meðvituðum ásetningi eða yfir höfuð eitthvað sem fólk spáir endilega í, heldur er þetta oft bara undirliggjandi regla aftast í hausnum og strax og maður bendir á hana skreppur hún náttúrulega saman því af hverju í ósköpunum værum við að tala þetta furðulega tungumál myndlistar ef við værum hreint út að reyna að segja eitthvað skilgreinanlegt.

Margir ganga að myndlist eins og forvitnir foreldrar

Margir ganga að myndlist eins og forvitnir foreldrar sem raska friðhelgi einkalífs barna sinna, djúplesandi ljóð úr dagbókum þeirra, orðlaus rýnandi inní sálalíf unglingsins. Ég held að hér sé enginn að reyna að tjá neitt undir rós eða lauma að þér í óbeinum orðum einhverju sem þeir skammast sín smá fyrir eða þora ekki að segja hreint út. Það er best fyrir þá sem tengja, jafnvel bara smá, við þessa skilgreiningu að skoða hvort þau gangi alveg örugglega ekki út frá því að listafólk sé að reyna að spila einhvern flókinn orðaleik þýðingar eða bera fyrir sig kúltiveraðar myndgátur.

Það er þá kannski þessi sami þýðingarþorsti sem stoppar marga á þröskuldi siðmenningar andspænis óvissu víðáttu náttúru. Því hér er engin listamaður til að spyrja „Og hvað varstu að svo hugsa þegar þú gerðir þetta fjall?“ „Hvaða eldri stöðuvötn eru þinn helsti innblástur?“ „Hvaða rök má bera fyrir gerð þessa móa?“ Ég sé ekki betur en að hér sé ég byrjaður að tala almennt um hugsun sem síður undirliggjandi þiggjandi listaverk og finnur sig knúinn til að segja „svo verður þetta mikils virði einn daginn“ sem er svo gott sem að segja „nú sitjum við spennt eftir því að þú dettir niður dauður.“

Sú sama hugsun sér fyrir sér virkjun í Markarfljóti og getur varla beðið eftir að tækifæri gefist til að koma þessu öllu á kaf. Skilgreindu náttúru, skilgreindu verkið, skilgreindu gildi, skilgreindu virði. Svo eru það hin sem liggja á listamönnum þessa stundina og sem við jú vinnum víst eitthvað með, fyrirgefðu gjörsvovel og fylgdu þessu verkferli, var það ekki örugglega rétt að þetta séu arðbærar jarðtengingar samofnar listköpun, uu-uu-uu menningararfur frá frænda mínum, nefndin jamm og jæjar og sér að gildi skila sér hér sé menningarlegur hagnaður sem skilast í betra fasteignamati. Í matinn í kvöld nýsköpun, ný-frjálshyggja, og hvað borða svo þessir gestir og ferðamenn jú mhm, er ég ekki örugglega að vinna vinnuna mína. Skilgreindu útivist, skilgreindu verknaðinn, skilgreindu sjálfan þig og þitt gildi. Árás Á rás um landið.

Elsku óþjála málfars pestin mín

Ókei ó-nei við erum kominn of langt undir húddið. Rólegur, meðvitundarstraumur, þýðinga hugbúnaður google translate heldur ekki í við þig. Hvernig komum við hingað?

Augljóslega hef ég ekki tök á tungumálinu og fyrirgefið opinberunar tóninn en ég hef ekki skrifað á Íslenku síðan ég var hrekkjusvín í grunnskóla og það er greinilega uppsöfnuð spenna sem þarf a leysa og vöðvaminnið kickar-inn þegar ég sé ný-orðasambönd sem mig langar að lúskra á. Á gangi á göngum og held varla þræði, í hverju horni er nýr lúði og ég missi stjórn á óöryggis drifinni reiðinni í árangurslausri tilraun til að aðgreina mig frá þeim. Svo buna ég hér á taumlausum graðhest íslenskrar tungu og ég rétt næ að halda mér á baki, Ó mæ þessi hömlulausa stuðla fýsn, ég er að láta of mikið eftir mér elsku óþjála málfars pestin mín.

f-f-f-f-f-F-F Ég kaufti stóra pakkaf prins póló í Costco og vá hvað hljóðið er alveg eins þegar ég tek bita og bryð það og þegar ég labba niður brekkuna í Emstrum.

Tvö skref fram á við, eitt til baka

Klikk - klakk, Klikk - klakk, Klikk - klakk, Klikk - klakk

Nálinn inn, nálinn út

tvö skref fram á við, eitt til baka,

endurtaka.

Þráðurinn myndar stíg, sporin bergmála undir yfirborðinu og teygja sig eins og rætur.

Nálin og ég hreyfumst vélrænt yfir grátt yfirborð strigans næstum án þess að hugsa. Slóðin er að mestu fyrir fram ákveðin þar sem ég hef teiknað gróft kort sem sýnir svæðið en þó að kortið sé jafn rúmgott og glæsilegt og svæðið, þarf leiðin engu að síður að vera þakin.

Svæðið verður alltaf að verða að veruleika í einhverri mynd, þó að í sumum tilvikum nægi ímynduð ganga.

Tufting eða smyrna er textílaðferð þar sem þráð er spyrnt í gegnum striga. Smyrnuvélin notar loftþrýstikraft til að þrýsta U-laga þræði af ull gegnum beran grófan striga og skilur svo eftir þéttar skornar lykkjur af ull. Þú þekkir eflaust aðferðina úr IKEA-gólfteppum eða veggteppum frá áttunda áratugnum sem oft er að finna á heimilum eldri ættingja.

Jökulgilið líkist króknum fingri

Það er tilfinning af kortlagningu og staðsetningu í aðgerðinni, tilfinning um að stíga skref og merkja hvar mörkin séu, hvar þú ert og hvar þú hefur verið.

Ég ímynda mér að ég gangi upp hrygg að Fjallabaki. Ef það eru hugmyndir mínar og innblástur sem ég vinn markvisst að að skilja og kynnast hægt og rólega þegar ég iðka iðn mína, þá er það hér, þar sem ég sé þær sem skýrast. Séð að ofan geng ég meðfram vatnsbólum, þar eru mosaþyrpingar og stórir klettar þaktir snjó.

Jökulgilið, ef því er þjappað í sitt einfaldasta form, líkist króknum fingri.

Ég yfirfæri siggið og blöðrurnar af fingrunum á fæturna og ímynda mér að ég hafi gengið í marga daga. Stígarnir, sem liða niður fjöllin, í sikk sakk og líkjast útsaum eða hálf huga kroti af snörpum línum sem eru teiknaðar á umslag eða kvittun. Stígurinn er tjáning manna á greinarmun þeirra frá náttúrunni og þátttöku þeirra innan þessar aðgreiningar, dreginn í sína einföldustu mynd. Klikk - klakk, klikk - klakk, vinstri fótur, hægri fótur, áfram og áfram.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ég er bara lítill sólargeisli

Pistlar

Andfýla borgarinnar minnir á mikilvægi fjallaloftsins

Hafnarfjarðarkaupstaður

Einmanalegt og stórfurðulegt að vera landvörður núna