Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hörmungarnar í Beirút:„Öllum er sama um okkur“

06.08.2020 - 21:00
Emmanuel Macron Frakklandsforseti í heimsókn í Beirút í vikunni. - Mynd: EBU / EBU
Reiðir og örvæntingarfullir Beirútbúar hópuðust að forseta Frakklands sem kom til Líbanon í morgun og grátbáðu um aðstoð. Krafa um óháða rannsókn á hörmungunum í Beirút verður sífellt háværari.

Nærri 300 þúsund misstu heimili sín og mörg þeirra vita ekki hvar aðstoð er að fá. Spilling er landlæg í Líbanon, stundum er stjórnkerfið sjálft sagt ein spilling. Traust til stjórnmálamanna er lítið sem ekkert og því fáir sem treysta á þá varðandi uppbyggingu eða rannsókn á atvikinu. „Fólk biður frönsk og evrópsk stjórnvöld að hjálpa Líbanon  en ekki að hjálpa ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin vinnur ekki í þágu þjóðarinnar,“ segir George Nader, fyrrverandi hermaður, sem mættur var á mótmæli gegn stjórnvöldum í dag. 

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV
Stór hluti borgarinnar varð fyrir skemmdum.

Tvær sprengingar urðu við höfnina, seinni sprengingin var svo gríðarleg að hún bar með sér höggbylgjur á við stóran jarðskjálfta. Talið er að nærri 3000 tonn af ammóníum nítrati sem geymd voru í vöruskemmu við höfnina séu orsökin. 

Höfnin er nálægt byggð og því fjöldi heimila algjörlega í rúst, og dæmi um skemmdir í nokkurra kílómetra radíus frá sprengingunni.  Um 80% innflutnings fara um höfnina, hún er nánast horfin á einu bretti og stór hvít síló sem geymdu stóran hluta af kornforða Líbana skemmdust mikið. 

Frakklandsforseti mættur til Beirút

Vitað er um nærri fimm þúsund sem slösuðust, á annað hundrað sem létust og margra er enn saknað. Á meðal þeirra fyrstu til að senda Líbönum neyðaraðstoð voru Frakkar og forseti Frakklands er kominn til Beirút. Samband ríkjanna hefur lengi verið náið, landsvæðið sem þekkt er sem Líbanon í dag var undir yfirráðum Frakka í rúm tuttugu ár þar til það fékk sjálfstæði 1943.

epa08587331 French President Emmanuel Macron hugs a resident as he visits a devastated street of Beirut, Lebanon, 06 August 2020. Macron arrived to Lebanon to show support after a massive explosion on 04 August in which at least 135 people were killed, and more than 5,000 injured in what believed to have been caused by an estimated 2,750 of ammonium nitrate stored in a warehouse.  EPA-EFE/Thibault Camus / POOL MAXPPP OUT
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Macron og ung kona sem hrópaði að honum féllust síðar í faðma.

Örvæntingarfullir Beirútbúar hópuðust að Emmanuel Macron Frakklandsforseta þegar hann gekk um hverfi sem varð illa úti í sprengingunum. „Það er fólk enn undir brakinu. Enn í dag. Annaðhvort lífs eða liðið. Við vitum ekkert. Ekki lögreglan heldur. Þetta var ekkert rannsakað almennilega. Öllum er sama um okkur, við stöndum ein í þessu, en saman. Hvers vegna?" Spurði ung kona Macron þegar hún mætti honum. Hún grátbað hann að beita líbönsk stjórnvöld þrýstingi svo gerð yrði óháð rannsókn. 

Síðar í dag ávarpaði Macron fréttamenn þar sem hann sagðist hafa rætt þörf á breytingum við leiðtoga Líbanons á fundi og hvatt til óháðrar rannsóknar.