Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hlutlaus kynskráning í þjóðskrá og ókynjuð orðanotkun

06.08.2020 - 12:43
Skjáskot úr Frímínútum Frímanns Gunnarssonar.
 Mynd: Frímínútur - RÚV
Breytt kynskráning í þjóðskrá, fleiri mögulegar ástæður mismununar í jafnréttisáætlunum sveitarfélaga og breytingar á kærunefnd jafnréttismála er meðal þess sem kemur fram í frumvörpum um jafna stöðu og rétt kynjanna og stjórnsýslu jafnréttismála.

Þetta kemur fram í nýjum frumvörpum til laga um stjórnsýslu jafnréttismála og um jafna stöðu og rétt kynjanna, sem ætlunin er að leggja fram samhliða. Frumvörpin verða opin í samráðsgátt stjórnvalda þar til á morgun.

Fulltrúum í kærunefnd fækkað

Gerðar verða kröfur um sérþekkingu innan kærunefndar jafnréttismála, til dæmis á sviði kynjajafnréttis. Fulltrúum í nefndinni verður fækkað til að ná fram aukinni skilvirkni.

Í drögunum er gert ráð fyrir að úrskurðir kærunefndar séu bindandi. Nú er þess jafnframt krafist að þau sem hafi talist brotleg geti ekki hunsað niðurstöðuna með athafnaleysi.

Vilji viðkomandi láta reyna á niðurstöðuna fyrir dómi fær kærandi málskostnað greiddan. Í athugasemd við frumvarpið er þeirri hugmynd mótmælt harðlega með þeim rökum að möguleiki á málshöfðun geti fælt fólk frá að leita réttar síns. Úrskurðir kærunefnda skuli vera endanlegir.

Jafnréttisnefndir sveitarfélaga afnumdar

Gert er ráð fyrir að í jafnréttisáætlun sveitarfélaga verði bætt við fleiri ástæðum mismununar en kyni; til að mynda trú, þjóðernisuppruna, aldri og kynvitund.

Ekki er lengur gert ráð fyrir sérstökum jafnréttisnefndum sveitarfélaga heldur fari byggðarráð eða önnur fastanefnd sveitarfélags með jafnréttismál innan sveitarfélagsins.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er því fagnað að störf flokkist ekki lengur í sérstök karla- og kvennastörf. Jafnframt telur sambandið brýnt að bregðast skuli við fjölþættri mismunun víðar en í skólum, líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Mannréttindaskrifstofa Íslands tekur undir það. Mannréttindaskrifstofan kallar einnig eftir heimild til handa kærunefnd jafnréttismála að ná samhengi í málsmeðferð með því að skoða alla löggjöf í málaflokknum saman.

Breyting á skráningu kyns 

Í frumvarpi til laga um jafna stöðu og rétt kynjanna er gert ráð fyrir þremur möguleikum á skráningu kyns í þjóðskrá. Auk karls og konu bætist við hlutlaus kynskráning. Orðanotkun laganna er ekki kynjuð, orðið fólk er notað í stað orðsins menn svo dæmi sé tekið.