„Hann tók bara bremsurnar af og vélin fauk upp í loft“

Mynd: Facebook / .

„Hann tók bara bremsurnar af og vélin fauk upp í loft“

06.08.2020 - 12:30

Höfundar

„Þegar þetta var sem mest 2002, í febrúar og mars, voru þetta um 30 gigg hvorn mánuðinn, að meðaltali eitt á dag,“ segja þeir Einar Örn Jónsson hljómborðsleikari og Hrafnkell Pálmarsson gítarleikari úr hljómsveitinni Í svörtum fötum, sem var gríðarlega vinsæl upp úr aldamótum.

Rætt var við þá í fimmta þætti af tíu af Aldamótapoppurunum sem er á dagskrá Rásar 2 á sunnudögum í sumar. Margir minnast með hlýhug tímabilsins í kring um aldamótin, en það var blómaskeið hinna svokölluðu sveitaballabanda þar sem hæst bar meðal annars Land og syni, Skítamóral, Írafár og Buttercup, auk áðurnefndra Í svörtum fötum. Einar Örn hljómborðsleikari var í starfi umboðsmanns og sá um að skipuleggja ballstarfið. „Það var alltaf þriðjudagstölvupóstur til allra meðlima með subject-inu Framtíðin,“ segir hann léttur í bragði. „Það var heilmikið skipulag í kring um þetta og við rákum hljómsveitina eins og fyrirtæki, menn voru bara á launum.“

Verslunarmannahelgina árið 2002 var hljómsveitin á ferð og flugi, frá Galtalæk til Vestmannaeyja og loks Neskaupstaðar. Spilamennskan í Galtalæk átti eftir að draga dilk á eftir sér, en eftir að sveitin samþykkti að spila þar birtust skyndilega pappaspjöld í manneskjuhæð af Jónsa söngvara í öllum Hagkaupsbúðum landsins. „Einn daginn þegar Jónsi kíkti í Hagkaup voru hann og Birgitta komin út um alla búð, en Hagkaup var styrktaraðili Galtalækjar. Ég vildi náttúrulega semja sem best fyrir okkar hönd. Getur vel verið að þar hafi læðst inn í smáu letri að það mætti nýta söngvarann svona,“ segir Einar. 

Daginn eftir Galtalæk fór sveitin svo með einkaflugvél á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum því veðrið var svo slæmt að áætlunarflug lá niðri. „Það var eina flugvélin sem lenti í Eyjum þann dag. Það þurfti ekki einu sinni að keyra vélina eftir flugbrautinni, það var ekkert flugtak. Hann tók bara bremsurnar af og vélin fauk upp í loft.“ Ballið á Neskaupstað á sunnudeginum var svo eitt minnisstæðasta ballið á ferlinum. „Alveg kjaftfullt. Það var svo svakalegt stuð að einn gestanna dansaði á vegg og kjálkabraut sig eða eitthvað. Svo þegar við ætluðum að fljúga heim beint eftir gigg þá var engin flugvél því hún var notuð sem sjúkraflugvél.“ Allra stærsta giggið þeirra var hins vegar á Hafnarbakkanum í Reykjavík á Menningarnótt 2005. „Þetta voru um 100.000 manns. Alveg sjúk upplifun að horfa á þetta mannhaf syngja með.“

Vignir Egill Vigfússon ræddi við Einar Örn Jónsson og Hrafnkel Pálmarsson í Aldamótapoppurunum sem eru á dagskrá Rásar 2 á sunnudögum klukkan 18:10. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sem og eldri þætti í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Stór stund þegar Birgitta dressaði alla í loðlegghlífar

Tónlist

Fordómar grættu liðsmenn sveitaballasveitanna

Tónlist

Birgitta Haukdal með Skítamóral í Hörpu í kvöld

Popptónlist

Skítamórall með nýtt hreinræktað sveitaballalag