Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Grímur geta vafalaust komið í veg fyrir smit

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
„Rannsóknir hafa sýnt, án nokkurs vafa, að andlitsgrímur geta komið í veg fyrir COVID-19-smit á milli einstaklinga.“ Þetta kemur fram í svari Jóns Magnúsar Jóhannessonar, deildarlæknis á Landspítalanum, á Vísindavef Háskóla Íslands. Samkvæmt reglum sem tóku gildi á hádegi síðastliðinn föstudag er fólki skylt að bera grímur hér á landi við aðstæður þar sem ómögulegt er að halda tveggja metra fjarlægð milli fólks.

Í svarinu kemur fram að sjúkdómurinn dreifist fyrst og fremst með dropa- eða snertismiti og að grímur grípi yfirgnæfandi meirihluta dropa frá öndunarfærum. Þannig geti þær bæði stöðvað dropa sem fólk gefur frá sér við hósta og hnerra og dropa sem berast að vitum fólks frá öðrum. 

Takmörkun á fjarlægð og almenn smitgát öflugasta vörnin

Þó beri að hafa í huga að grímur geti líka veitt falskt öryggi og leitt til þess að fólk fylgi síður reglunni um tveggja metra fjarlægð. „Takmörkun á fjarlægð og almenn smitgát eins og handþvottur og tillitssemi við hósta eða hnerra (í olnbogabót) er öflugasta vörnin.“

„Ef fjarlægðartakmörkunum er viðhaldið eru grímur í raun belti með axlaböndum. Þá eru þær óþarfa viðbót með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Notkun gríma getur þó gert tímabundna nálægð einstaklinga öruggari svo framarlega sem þær eru notaðar á réttan hátt,“ segir einnig í svarinu.

Þær geti hins vegar gert okkur kleift að viðhalda smitgát við aðstæður sem annars væru hættulegar. „Þannig getum við farið í klippingu, ferðast með strætó og verslað í matvöruverslun og verndað bæði okkur sjálf og aðra.“

Mikilvægt að nota grímur á réttan hátt

Þá segir að virkni gríma sé langmest við skilgreindar aðstæður og að mikilvægt sé að huga að eftirfarandi atriðum:

  • Hendur þurfa að vera hreinar áður en gríma er sett á.
  • Gríman þarf að hylja nef og munn.
  • Ekki má snerta sjálfa grímuna eftir að hún er komin á.
  • Ekki ætti að taka grímuna niður nema næsti einstaklingur sé í minnst tveggja metra fjarlægð.
  • Aðeins á að snerta böndin þegar gríma er tekin niður, henni skal fleygja á öruggan hátt og hendur þvegnar að því loknu.
  • Ef nota þarf grímu í langan tíma á að skipta reglulega til að koma í veg fyrir rakamettun (á sérstaklega við um einnota grímur).
  • Fjölnota grímur þarf að þvo daglega (aðferð fer eftir gerð grímu).