Hinsegin dagar standa nú yfir, þó með talsvert öðru sniði en fólk á að venjast. Nær öllum viðburðum hefur verið aflýst eða frestað sökum faraldursins. Gleðiganga hinsegin daga í Reykjavík, sem á tuttugu ára afmæli í ár, er þeirra á meðal. Afmælið er ljúfsárt fyrir marga sökum þess að gangan verður ekki gengin í ár - í fyrsta sinn síðan hún hófst árið 2000 - vegna Covid-19 faraldursins. Fólk er í staðinn hvatt til þess að halda í sínar eigin gleðigöngur í tilefni afmælisins.
Þá geta þeir sem syrgja gönguna einnig huggað sig við það að Fjaðrafok, ný heimildamynd um Gleðigönguna, er væntanleg. Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarmaður stendur að heimildamyndinni sem sýnd verður á RÚV á sunnudaginn klukkan 20.20. Sagt er frá forsögu göngunnar í myndinni, hvernig hún kom til og af hverju hún þótti nauðsynleg, fyrirmyndinni erlendis frá og þróun göngunnar, segir Hrafnhildur í viðtali á Morgunvakt Rásar 1.
Hrafnhildur segir að vissulega sé svekkjandi að gangan verði ekki gengin í ár, fjöldi fólks hlakki til hennar ár hvert. Hins vegar endar heimildamyndin á léttum nótum, segir hún, og sýnir fram á að hægt er að fara í sína eigin Gleðigöngu á þessum tímum faraldursins. „En ég er hætt að mynda, þannig að ég verð bara komin í orlof upp í sveit,“ segir hún glettin.