Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrstu gleðisporin tekin frá Hlemmi árið 2000

Mynd: Samsett mynd / Samsett mynd

Fyrstu gleðisporin tekin frá Hlemmi árið 2000

06.08.2020 - 13:49

Höfundar

„Það er minna um dúskana og dúllurnar og tjullið og allt það, þó það sé líka með, en gangan er dálítið pólitísk og það er athyglisverð þróun,“ segir Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarmaður um þróun Gleðigöngunnar, sem fagnar nú 20 ára afmæli. Hrafnhildur, sem hefur myndað nær allar göngurnar, frumsýnir heimildamynd um þær um helgina.

Hinsegin dagar standa nú yfir, þó með talsvert öðru sniði en fólk á að venjast. Nær öllum viðburðum hefur verið aflýst eða frestað sökum faraldursins. Gleðiganga hinsegin daga í Reykjavík, sem á tuttugu ára afmæli í ár, er þeirra á meðal. Afmælið er ljúfsárt fyrir marga sökum þess að gangan verður ekki gengin í ár - í fyrsta sinn síðan hún hófst árið 2000 - vegna Covid-19 faraldursins. Fólk er í staðinn hvatt til þess að halda í sínar eigin gleðigöngur í tilefni afmælisins.

Þá geta þeir sem syrgja gönguna einnig huggað sig við það að Fjaðrafok, ný heimildamynd um Gleðigönguna, er væntanleg. Hrafnhildur Gunnarsdóttir kvikmyndagerðarmaður stendur að heimildamyndinni sem sýnd verður á RÚV á sunnudaginn klukkan 20.20. Sagt er frá forsögu göngunnar í myndinni, hvernig hún kom til og af hverju hún þótti nauðsynleg, fyrirmyndinni erlendis frá og þróun göngunnar, segir Hrafnhildur í viðtali á Morgunvakt Rásar 1.

Hrafnhildur segir að vissulega sé svekkjandi að gangan verði ekki gengin í ár, fjöldi fólks hlakki til hennar ár hvert. Hins vegar endar heimildamyndin á léttum nótum, segir hún, og sýnir fram á að hægt er að fara í sína eigin Gleðigöngu á þessum tímum faraldursins. „En ég er hætt að mynda, þannig að ég verð bara komin í orlof upp í sveit,“ segir hún glettin.

Mynd með færslu
 Mynd: Hreiðar Þór Björnsson - RÚV

Viðeigandi að líta um öxl

„Í nær tvo áratugi hefur Gleðigangan hríslast síðsumars um miðborgina með látum sínum og litum. Forsagan spannar tæpa tvo áratugi þar samkynhneigðir börðust fyrir réttindum sínum með ýmsum aðferðum, meðal annars með því að auka sýnileika homma og lesbía og síðar transfólks á götum úti. Fyrstu gleðisporin voru tekin frá Hlemmi árið 2000, nú tuttugu árum síðar er við hæfi að líta um öxl. Fjaðrafok fjallar um sýnileikann, saumsporin, skipulagninguna, þróun og þroska Gleðigöngunnar - Hinsegin daga og áhrifin sem hún hafði á okkur öll,“ segir í lýsingu með myndinni.

Gangan varð snemma afar fjölmenn, segir Hrafnhildur. „Strax árið 2001 og 2002 eru götur Reykjavíkur orðnar fullar af fólki. Síðan eykst þetta mjög líka eftir 2009 og náttúrulega þegar gangan fer af Laugaveginum.“

Þá hafa orðið breytingar og gangan þróast í gegnum árin. „Hin síðari ár þá hefur gangan orðið vettvangur fyrir aðra hópa sem telja sig líka þurfa að auka sinn sýnileika og berjast fyrir sínum réttindum, og eins og einn ágætur viðmælandi í myndinni segir þá er þessi ganga kannski orðin svona almenn ganga til þess að auka mannréttindi, og það er í raun og veru einstakt í heiminum. Það er minna um dúskana og dúllurnar og tjullið og allt það, þó það sé líka með, en gangan er dálítið pólitísk og það er athyglisverð þróun.”

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv

Hefur myndað nær allar Gleðigöngurnar

Þáttaröð Hrafnhildar Svona fólk var sýnd á RÚV í fyrra og endursýnd í ár. Í þáttunum fjallar hún um líf og réttindabaráttu homma og lesbía á Íslandi og lýsir stórtækum og hröðum breytingum á íslensku samfélagi. Hún hóf að safna heimildum fyrir verkefnið árið 1992 og verkefnið var 27 ár í vinnslu.

Samhliða því safnaði hún gögnum frá Gleðigöngunum og hefur myndað gönguna nær öll tuttugu ár hennar. Hún býr því yfir gríðarlega miklu efni. „Ég á gríðarlega mikið efni frá fyrstu árunum sérstaklega, þó að ég hafi myndað flest ár og ég skynjaði það nú strax í nóvember að það þyrfti að gera þessa mynd, (...) og úr er orðin 68 mínútna mynd sem að segir þessa sögu, vegna þess að þessi ganga kom náttúrulega ekki til af ekki neinu.“

Þar sem af nægu myndefni er að taka stendur til að birta brot úr öllum tuttugu Gleðigöngunum á allra næstu dögum á vef Svona fólks, segir Hrafnhildur. 

Agndofa yfir því hvernig viðbrögðin eru öðru vísi

Hrafnhildur fjallaði um alnæmisfaraldurinn í Svona fólk. Hún segir að það hafi verið sérstakt að fylgjast með viðbrögðunum við Covid-19, samanborið við viðbrögð við alnæmisfaraldrinum á sínum tíma. 

„Það hefur verið mjög sérstakt að fylgjast með viðbrögðum við Covid-19 vegna þess að þetta er svo allt, allt, allt öðru vísi og maður er pínu svona agndofa yfir því hvernig viðbrögðin eru öðru vísi, þetta er náttúrulega öðruvísi faraldur, en alnæmið á sínum tíma og HIV, það var svo mikil þögn sem umlukti málið og stjórnvöld í mörgum löndum voru mjög treg að gera eitthvað og læknavísindin voru sein af stað. Þetta var allt, allt, allt öðru vísi barátta,“ segir hún.

Hrafnhildur Gunnarsdóttir ræddi við Veru Illugadóttur á Morgunvakt Rásar 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Heimildamyndin Fjaðrafok er á dagskrá á sunnudaginn klukkan 20.20 á RÚV.

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Persónuleg heimildarmynd um réttindabaráttu

Sjónvarp

Hjartað stoppaði og tárin spýttust fram

Kvikmyndir

„Ég lít ekki á mig sem neitt hinsegin“

Kvikmyndir

„Það var bara hreinlega allt bannað“