Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fjögur ný innanlandssmit í gær

06.08.2020 - 11:01
19. júlí 2020
 Mynd: Landspítali
Fjögur ný innanlandssmit greindust í gær, tvö á sýkla- og veirufræðideild og tvö hjá Íslenskri erfðagreiningu. Tveir bíða niðurstöðu mótefnamælingar eftir landamæraskimun. Enginn lagðist inn á sjúkrahús vegna COVID-19 sýkingar.

97 eru í einangrun og tala þeirra í sóttkví er 795. Það er aukning um 49 síðan í gær.

Fjöldi sýna sem tekin voru í gær var 2.979 þar af 2154 í landamæraskimun. Í fyrradag voru tekin 436 á sýkla- og veirufræðideild, 1131 í landamæraskimun og 179 hjá íslenskri erfðagreiningu.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis boða til upplýsingafundar fyrir fjölmiðla klukkan tvö í dag. Sýnt verður beint frá fundinum í Ríkisstjónvarpinu, á vef ruv.is og honum útvarpað á Rás 2. 

Gestur fundarins er Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Sóltúns en Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Alma D. Möller, landlæknir fara yfir stöðu mála, varðandi framgang COVID-19 faraldursins hér á landi, ásamt Rögnvaldi Ólafssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Fréttin var uppfærð 11:08 með nýjum tölum um fjölda sýna og aftur með fjölda í sóttkví. Hann er nú 795. Það er aukning um 49 síðan í gær.

 
Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV