Fjarlægðu færslur Trumps og kosningateymis hans

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Facebook og Twitter, tveir af stærstu samfélagsmiðlum heims, fjarlægðu í kvöld færslu Donalds Trumps og kosningateymis hans, þar sem forsetinn heldur því fram að börn séu „svo gott sem ónæm" gagnvart kórónaveirunni sem veldur COVID-19.

Forsetinn lét þessi ummæli falla í símaviðtali í morgunþætti Fox-fréttastöðvarinnar og birti þann hluta viðtalsins í Facebook-færslu síðar í gær. Facebook brást við með því að fjarlægja færsluna þar sem hún innihéldi „skaðlegar rangfærslur um Covid".

Ekki leið á löngu uns Twitter fylgdi fordæmi Facebook og tilkynnti að Twittersíða kosningateymis forsetans hefði verið fryst og engar nýjar færslur fengju að birtast þar fyrr en umsjónarmenn hennar hefðu fjarlægt færslu sem þar var sett inn með þessu sama myndskeiði.

Kórónaveiran „mun hverfa eins og aðrir hlutir hverfa.“

Í ráðleggingum bandarískra heilbrigðisyfirvalda vegna COVID-19 er tekið skýrt fram að börn séu á engan hátt ónæm fyrir farsóttinni, þótt smituð börn virðist almennt veikjast minna og smita síður en fullorðnir.

Í viðtalinu sagði Trump tímabært að allir skólar landsins hæfu kennslu á ný. „Ef þú lítur á börn, þá börn eru næstum - og ég myndi næstum segja algjörlega - næstum ónæm fyrir þessum sjúkdómi,“ sagðu forsetinn, og bætti því við að börn ættu hreinlega ekki í neinum vandræðum með COVID-19. Þá hélt hann því fram að kórónaveiran „[væri] að hverfa. Þetta mun hverfa eins og hlutir hverfa.“

Í bága við reglur um dreifingu rangra og villandi upplýsinga

Talsmaður Facebook sagði í gærkvöld að myndskeiðið sem forsetinn birti hefði innihaldið „rangar fullyrðingar um að hópur fólks væri ónæmt gagnvart COVID-19, sem fer í bága við reglur okkar varðandi skaðlegar rangfærslur um COVID."

Talsmaður Twitter sagði kosningateymi forsetans hafa brotið reglur miðilsins um rangfærslur og villandi upplýsingar um COVID-19. „Eigandi síðunnar verður að fjarlægja þessa færslu til að geta sett inn fleiri færslur," segir í yfirlýsingu Twitter. Skömmu síðar var búið að fjarlægja færsluna. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi