Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enn beðið úrbóta við Hörgárbraut - „mannslíf í húfi"  

06.08.2020 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Ekkert bólar á úrbótum til að auka umferðaröryggi á Hörgárbraut á Akureyri. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti fyrr á þessu ári að ráðist yrði í fimm aðgerðir í því augnamiði að lækka umferðarhraða. Íbúi við götuna segir mannslíf í húfi.

Ekið á fjóra gangandi vegfarendur á jafn mörgum árum

Umferðaröryggi við Hörgárbraut á Akureyri var mikið til umræðu í vetur eftir að ekið var á sjö ára stúlku í byrjun árs. Var það fjórða alvarlega slysið á götunni á jafn mörgum árum þar sem ekið var á gangandi vegfarendur. Í kjölfar slyssins samþykkti Akureyrarbær í samstarfi við Vegagerðina að ráðast í fimm aðgerðir til að lækka umferðarhraða. Þær eru meðal annars að setja upp hraðamyndavél, bæta merkingar. Þá er stefnt að því að endurskoða ljósatíma gönguljósa þannig að lengri tími líði frá því að þrýst er á hnapp og þar til ökutæki fá rautt ljós. Þar að auki er gert ráð fyrir að loka hjáleið frá Höfðahlíð inn á lóð N1 og beina ökumönnum frekar að hringtorginu við Undirhlíð.

Formaður skipulagsráðs sagði mikilvægt að bregðast við

Í tilkynningu frá bænum kom fram að farið yrði í verkefnið strax á þessu ári. Þá var haft eftir Tryggvi Má Ingvarsyni, formanni skipulagsráðs Akureyrarbæjar að bregðast þyrfti við ástandinu. „Við leggjum á það mikla áherslu að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi allra vegfarenda á þessu svæði sem og öðrum svæðum í bænum. Óvarðir vegfarendur eiga aldrei að vera í hættu á gangbrautum og því þarf að bregðast við, enda er forgangsmál hjá okkur að auka hlutdeild gangandi og hjólandi í umferðinni, "sagði Tryggvi. 

„Mannslíf í húfi" 

Enn hafa engar aðgerðir komst til framkvæmda við götuna. Auður Ólafsdóttir, íbúa við götuna og móðir drengs sem varð fyrir bíl árið 2018, kallar eftir aðgerðum. 

„Ég er bara með í maganum að það verði bara ekkert gert. Ef að fólk segir ekki neitt, þá gerist ekki neitt. Sú stelpa er ennþá í hverfinu sem var keyrt á í fyrra, þú getur ímyndað þér hvernig er fyrir hana að fara aftur af stað. Þetta er ekkert gott," segir Auður. 

„Þetta er ekki þannig mál að þú eigir bara að friða fólk, mannslíf eru í húfi hérna, það er þannig." 

Myndavélar í stillingu hjá framleiðanda

Samkvæmt upplýsingum frá Pétri Haraldssyni, formanni skipulagssviðs Akureyrarbæjar, hafa nokkrar fyrirspurnir um gang framkvæmda borist bænum. Hann segir að þær myndavélar sem keyptar voru séu enn í stillingu hjá framleiðanda. Meðfram uppsetningu á þeim verði farið aðrar aðgerðir á svæðinu.