„Ég skildi ekki orð af þessu“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég skildi ekki orð af þessu“

06.08.2020 - 13:23
Tíundi og næst síðasti þáttur Ólympíukvölds er á dagskrá RÚV kl. 19:40 í kvöld en þar verða Ólympíuleikarnir í London 2012 til umfjöllunar. Ólafur Stefánsson handboltamaður er gestur þáttarins, líkt og þeir Einar Örn Jónsson og Sigurbjörn Árni Arngrímsson.

Í þættinum verður meðal annars rifjað upp eftirminnilegt viðtal við Ólaf eftir leik á Ólympíuleikunum í Peking 2008 en Óli átti það til að vera afar áhugaverður viðmælandi. 

„Við erum bara að klifra upp þetta fjall. Það voru tvær leiðir í dag. Önnur var „píp“ og hin var upp skilurðu. Þannig að bara, ógeðslega gaman. Þetta átti að gerast einhvern veginn. Mér líður eins og Morpheus. Mér líður ógeðslega vel í þessari keppni eins og öllum þessum gaurum, bara frábært,“ sagði Óli í viðtali í Peking.

Óli er meðal gesta í kvöld en segist þó ekkert skilja hvað hann hafi átt við í umræddu viðtali. Leikarnir í London árið 2012 verða þó aðallega til umfjöllunar í kvöld en þeir leikar voru mikil vonbrigði fyrir íslenska handboltalandsliðið.