Aðstaða til sýnatöku á Akureyri sprungin

06.08.2020 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Aðstaða heilsugæslunnar á Akureyri til sýnatöku verður færð í stærra og hentugra húsnæði á næstu dögum. Starfandi yfirlæknir heilsugæslunnar segir núverandi aðstöðu algerlega sprungna.

Yfir 100 sýni á dag

Töluverð ásókn hefur verið í sýnatöku vegna Covid-19 á heilsugæslunni á Akureyri. Valur Helgi Kristinsson, starfandi yfirlæknir, segir núverandi aðstöðu algerlega sprunga og varla ráða við verkefnið eins og staðan er. 

„Við erum að fá vel yfir 100 manns í sýnatöku á dag og aðstaðan er alls ekki nægilega góð. Þar sem aðgengi bíla við Gilsbakkaveg er þröngt þá biðjum við fólk að koma fótgangandi og að halda tveggja metra bili, “ segir Valur Helgi. 

Ætla færa sýnatökuna í stærra húsnæði 

Valur segir mikið álag vera á hjúkrunarfræðingum sem sinni sýnatökunni og vonast til þess að komast í betri aðstöðu á næstu dögum. 

„Við erum komin með annað húsnæði undir þetta verkefni í Strandgötu. Það þarf bara að setja upp búnað og koma því í gagnið. Vonandi verður það bara á allra næstu dögum sem við getum farið að nota það.“ 

Meirihlutinn erlendir ferðamenn

Valur segir meirihluta þeirra sem koma í sýnatöku á heilsugæsluna á Akureyri vera erlenda ferðamenn. 115 þúsund farþegar hafa komið til landsins frá því að landamærin voru opnuð um miðjan júní. Þá hafa yfir 73 þúsund sýni verið tekin af ferðamönnum. 

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi