Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

WHO varar ungt fólk við - þarf alltaf að vera veisla?

05.08.2020 - 22:08
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hvetur ungt fólk til að láta af partístandi sínu yfir sumarið. Stofnunin segir að þótt yngra fólk verði ekki mjög veikt af kórónuveirunni stuðli það að útbreiðslu hennar.

Yfirvöld í mörgum Evrópulöndum hafa vaxandi áhyggjur af því að það sé ungt fólk sem sé að smitast af COVID-19 í meira mæli.

Samkvæmt vefnum covid.is er meira en helmingur þeirra sem eru í einangrun hér á landi fólk yngri en fertugt og því virðast „nýja bylgjan“ á Íslandi vera borin upp af þeim.

„Ungt fólk verður að horfast í augu við að það ber líka ábyrgð,“ sagði Mike Ryan, yfirmaður neyðaraðgerða hjá stofnuninni, á fundi hennar í dag. Unga fólkið verði að líta í eigin barm og spyrja: „Þarftu virkilega að fara út að skemmta þér? Þarftu að vera þarna?“

Á vef DR kemur fram að tölur stofnunarinnar bendi til þess að fjöldi smitaðra á aldrinum 15 til 24 ára hafi þrefaldast síðustu fimm mánuði. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, hefur sagt að helsta ástæðan fyrir nýrri bylgju smita um allan heim megi rekja til þess að ungt fólk hafi vanrækt einstaklingsbundnar sýkingavarnir.

Hér á landi hefur það sætt nokkurri gagnrýni að skemmtistaðir megi ekki hafa opið lengur en til klukkan 23. WHO varar við því að næturklúbbar verði opnaðir, þar séu ákjósanlegar aðstæður fyrir veiruna að dreifast.

Danir hafa hætt við að opna skemmtistaði í næsta fasta en ungir Danir höfðu hugsað sér gott til glóðarinnar síðar í þessum mánuði. Danskir sérfræðingar eru sammála um að þetta sé varhugavert;  gestir á skemmtistöðum standi oft nálægt hver öðrum, tali hátt og drekki áfengi. Hætt sé við því að fólk gleymi einstaklingsbundnum sýkingavörnum við slíkar aðstæður.

Fjölgun smita í bandarískum borgum eins og Miami, Kaliforníu og Florida hafa verið rakin til þess að ungt fólk hefur hunsað ráðleggingar yfirvalda. Það hafi verið að skemmta sér á ströndinni og næturklúbbum eða í háskólum.

NRK greinir frá því í kvöld að fjórir hafi greinst með kórónuveiruna eftir skemmtanahald í Osló. Yfir fimmtíu hafa verið sendir í sóttkví. Þeir sem voru að skemmta sér voru á aldrinum 20 til 25 ára. Grunur leikur á að sóttvarnareglur hafi verið brotnar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV