Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja laun í heimkomusmitgát

Mynd með færslu
 Mynd: BHM
Bandalag háskólamanna krefst þess að ríkisstarfsmenn sem ekki geta mætt til vinnu á meðan þeir viðhafa heimkomusmitgát fái greidd laun. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, segir heimkomusmitgát sambærilega sóttkví og engu máli skipta þótt starfsfólk ákveði sjálft að fara í frí til útlanda. 

Með lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, sem samþykkt voru á Alþingi í lok mars, voru launafólki tryggð laun í sóttkví. Þar var kveðið á um ríkisstuðning til atvinnurekenda vegna launagreiðslna til starfsfólks í sóttkví.

Lögunum var breytt þann 19. maí á þann veg að lögin giltu ekki um launafólk sem sjálft ákvæði að fara til útlanda þrátt fyrir að vera ljóst að það þyrfti að sæta sóttkví við heimkomuna. 

Segja engan mun á heimkomusmitgát og sóttkví

BHM gagnrýnir lagabreytinguna og í tilkynningu frá félaginu segir að „engu máli skipti þótt starfsmaðurinn hafi sjálfur ákveðið að fara í frí til útlanda“. BHM fer fram á að KMR taki breytinguna til endurskoðunar. „Að öðrum kosti áskilur bandalagið sér rétt til að grípa til viðeigandi aðgerða í því skyni að fá hlut félagsmanna leiðréttan,“ segir í tilkynningunni.  

Í bréfi BHM til Kjara- og mannauðssýslu ríkisins kemur fram að „landamæri Íslands séu opin og að Íslendingum sé frjálst að ferðast til annarra landa“. Að mati BHM sé enginn munur á heimkomusmitgát og annarri sóttkví.  

Þórunn segir málið snúast um að fara að kjarasamningum 

Aðspurð hvort hún telji eðlilegt að það sama gildi um þá sem fara í sóttkví eftir að hafa umgengist fólk sem reyndist síðar smitað og þá sem viðhafa heimkomusmitgát eftir að hafa farið í frí til útlanda segist Þórunn telja það eðlilegt. „Já, af því það er í samræmi við kjarasamninga ríkisins og þær leiðbeiningar sem kjara- og mannauðssýslan (KMR) í fjármálaráðuneytinu gaf út í vor. Þetta snýst um það að fólk sé að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og þau eru, hvort sem það heitir sóttkví eða heimasmitgát, þannig að fólk hefur ekkert val,“ segir hún. Hún bætir við að þetta snúist um að ríkið fari að þeim kjarasamningum sem það hefur gert og breyti ekki reglunum eftir á.  

„Það er ferðafrelsi í landinu“ 

Þórunn hafnar því alfarið að launagreiðslur í nokkurra daga heimkomusmitgát eftir frí búi til hvata fyrir fólk til að fara í frí til útlanda. „Þetta snýst um það að fara að fyrirmælum stjórnvalda. Eins og þetta var samkvæmt reglunum sem KMR gaf út í vor þá fær fólk greidd meðaltalslaun í samræmi við kjarasamninga á meðan það er í sóttkví. Og heimkomusmitgát er eins og annað, fyrirmæli frá stjórnvöldum. Fólki er frjálst að taka sumarleyfi og það er ferðafrelsi í landinu. Og ríkið hlýtur að geta tekið tillit til þess við þessar aðstæður,“ segir hún.  

Smitgát snúist um að fara að fyrirmælum stjórnvalda 

Aðspurð hvort hún telji ekkert óeðilegt að fólk sem ákveður að fara í frí til útlanda þrátt fyrir að vita að því sé gert að viðhafa smitgát við heimkomu, fái greidda fleiri daga frá vinnu en aðrir, segir hún málið ekki snúast um orlofsdaga heldur um það að fara að fyrirmælum stjórnvalda.  

„Og það eru reglur sem launafólk í landinu hefur ekki sett en ber að lúta og í kjarasamningum mælir fyrir um hvernig þetta eigi að vera. Og samkvæmt reglunum sem KMR gaf út í vor þá er þetta þannig að fólk fær meðaltalslaun greidd í sóttkví. Heimkomusmitgát er önnur útgáfa af varnaðaraðgerðum sem stjórnvöld hafa sett og okkur ber öllum að fara að. Og okkar spurning hjá BHM er hvers vegna KMR hefur breytt leiðbeiningareglunum,“ segir Þórunn.    

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV