Vilja fækka bílum með nýju stígakerfi á Akureyri

05.08.2020 - 15:08
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Tillaga að nýju stígakerfi innan Akureyrarbæjar liggur nú fyrir. Breytingin felur í sér nýtt heildarskipulag fyrir kerfi göngu- og hjólastíga í bænum. Þar er meðal annars gert ráð fyrir auknum aðskilnaði gangandi og hjólandi umferðar.

Málið var til umræðu á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs, og Tryggvi Már Ingvarsson, formaður skipulagsráðs, ræddu málið við fréttamann. Spjallið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Gera ráð fyrir auknum aðskilnaði gangandi og hjólandi

Í skipulaginu er meðal annars gert ráð fyrir auknum aðskilnaði gangandi og hjólandi umferðar með uppbyggingu á nýjum stofnstígum og endurbótum á þeim sem fyrir eru. Tillagan er unnin í samræmi við markmið bæjarins um að byggja upp skilvirkt, öruggt og aðlaðandi stígakerfi sem geri íbúum kleift að sinna vinnu, daglegum erindum allt árið um kring. 

Árið 2016 var unnin umhverfis- og samgöngustefna hjá Akureyrarbæ þar sem bærinn setti sér ýmis markmið í umhverfismálum. 

„Markmið að fækka bílum og bæta lýðheilsu“

„Við settum okkur þau markmið að fækka bílum og bæta lýðheilsu bæjarbúa með því að bjóða upp á fjölbreyttari samgöngumáta. Eitt af atriðum stefnunnar var að setja fram einhvers konar stígaskipulag þar sem að við myndum setja með skarpari hætti fram hvernig við sjáum stofnstíga hjólreiða á Akureyri þróast,“ segir Tryggvi. 

Vilja hafa sérstakar samgönguleiðir fyrir reiðhjól

Pétur segir að þeir stígar sem fyrir eru á Akureyri séu mjög góðir og hafi gegnt mikilvægu hlutverki síðustu ár. Kerfið byggist á góðum grunni en nú sé komið að því að skerpa línurnar.

„Áherslan hefur verið á að nú á að bæta við þessum nýja samgöngumáta sem reiðhjólin eru. Markmiðið er að það verði til sérstakar leiðir fyrir reiðhjól. Þetta gerist ekki á einni nóttu, við náttúrulega byggjum á því sem fyrir er og til að byrja með þá verður þetta víðast hvar, bæði gangandi og hjólandi. Síðan erum við að breikka stíga og á öðrum stöðum að gera sérstaka stíga. Þannig að við erum svona smá saman að þróa þetta yfir í að þetta verði sérstakar samgönguleiðir fyrir hjólin,“ segir Pétur.

Rafmagnshjólin breytt landslaginu

Þeir segja hjólreiðar verða sífellt vinsælli á Akureyri. Ákveðin sprenging hafi svo orðið með tilkomu rafmagnshjóla sem henta sérstaklega vel í allar brekkurnar á Akureyri. 

„Rafmagnshjólin hafa breytt landslaginu mikið. Með tilkomu þeirra er þetta ekki bara fyrir þá allra hörðustu að hjóla allt árið um kring. Þróunin er svo hröð, það er varla hægt að líkja hjólreiðum í dag við hjólreiðar fyrir tíu árum,“ segir Tryggvi. 

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi