Var hætt kominn í vatnsmikilli á

05.08.2020 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg - Aðsend mynd
Vart mátti tæpara standa í morgun þegar erlendum ferðamanni var bjargað úr jeppa í Kaldaklofskvísl við Hvanngil. Ökumaðurinn hafði fest bíl sinn, sem er óbreyttur jeppi, í ánni. Áin er óvenju vatnsmikil og það flæddi inn í bílinn, sem var farinn að grafast niður þegar björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli komu á vettvang. Þá hafði ökumaðurinn verið á þaki bílsins í tvo klukkutíma. Vel gekk að koma honum í land.

Landsbjörg bendir á það í tilkynningu að vegna rigninga er farið að vaxa mikið í ám á hálendinu og því eru margar þeirra illfærar og jafnvel ófærar óbreyttum jeppum. Jónas Guðmundsson, verkefnisstjóri slysavarna hjá Landsbjörg, segir að mjög hratt hafi vaxið í ánni síðustu daga. Þar hann var þar á ferð fyrir helgi hafi áin verið fær jepplingum. Ökumaðurinn var á óbreyttum Land Rover jeppa en þekkti ekki vel til aðstæðna í ánni. Jónas segir að í ánni séu þrjú grjót sem ökumenn miði við þegar þeir aki þar yfir. Þegar Kaldaklofskvíslin sé orðin svona vatnsmikil sé það ekki hægt. 

Jeppinn var kominn langleiðina í kaf þegar björgunarsveitir komu á vettvang. Það vildi til happs að fólk á ferð við ána sá hvers kyns var og kallaði eftir hjálp. Skáli er í um átta mínútna göngufjarlægð og göngubrú er einnig þar skammt frá. 

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg - Aðsend mynd

Jeppinn var farinn að grafast niður að framan og lyftast upp að aftan og hreyfast. Jónas segir að þegar svo sé komið líði yfirleitt ekki langur tími þar til bíll fari af stað. Það hafi því ekki mátt tæpara standa. 

Björgunarsveitirnar óku á sérútbúnum jeppa út í ána og upp að hlið jeppans og björguðu ökumanninum þannig af þaki jeppans. Svo hófust sveitirnar handa við að ná jeppanum úr ánni. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi