Stefnir í fordæmalausa kosningabaráttu vestanhafs

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett RÚV - AP/EPA
Joe Biden, verðandi forsetaefni Demókrataflokksins, hefur ákveðið að taka ekki við útnefningu á flokksþingi flokksins í Milwaukee um miðjan mánuðinn. Donald Trump hefur sömuleiðis gefið í skyn að hann ætli að taka við formlegri útnefningu frá heimili sínu- Hvíta húsinu. Trump vill bæta við fjórðu sjónvarpskappræðunum eða flýta þeim fyrstu. Talsmenn Bidens segja að forsetinn ætti að hafa jafnmiklar áhyggjur af COVID-19 og kappræðunum.

Forsvarsmenn kosningaherferðar Biden segja ástæðuna fyrir ákvörðuninni vera kórónuveirufaraldurinn. Biden taki við útnefningunni frá heimili sínu í Delaware þar sem hann hefur að mestu leyti dvalist undanfarna mánuði.  „Við höfum alltaf sagt að heilsa og öryggi Bandaríkjamanna er í forgangi,“ segir Tom Perez, formaður Demókrataflokksins.

Trump ætlar að nota Hvíta húsið

Trump forseti ætlar líklega einnig að taka við formlegri útnefningu flokks síns heima hjá sér. Sem í þessu tilviki væri þá Hvíta húsið. Engin hefð er fyrir slíku og raunar er gert ráð fyrir því að forsetar aðskilji kosningabaráttu sína frá embættinu.

Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeildinni, sagði þetta einfaldlega rangt. Forsetinn væri enn einu sinni að smána Hvíta húsið eins og hann hefði reyndar ítrekað gert að undanförnu.

Trump ætlaði upphaflega að taka við útnefningunni í Norður-Karólínu en hætt var við það vegna farsóttarinnar. Flórida var hugsað sem varaplan en fór einnig vaskinn af sömu ástæðu. 

Forsetinn hvergi af baki dottinn

Trump varði ákvörðun sína í símviðtali við Fox og sagði þetta ódýra lausn. Ekki þyrfti að flytja til neitt starfsfólk.  Hann myndi þó endurskoða ákvörðun sína ef einhver „sæi á þessu meinbugi.“

Þótt kannanir sýni yfirburðaforskot Bidens er Trump hvergi af baki dottinn. Hann viðurkenndi í viðtalinu við Fox að kosningabaráttan ætti eftir að verða hörð og erfið.  Hann hefði þó séð kannanir sem ekki hefðu verið gerðar opinberar en bentu til þess að hann stæði vel að vígi. 

Líkt og undanfarna daga viðraði hann áhyggjur sínar af póstkosningum og sagði þær geta orðið til þess að enginn yrði lýstur sigurvegari fyrr en eftir nokkra mánuði eða jafnvel ár.

Demókratar hafa sagt að forsetinn óttist póstkosningar þar sem slíkt myndi þýða aukin kjörsókn og það kæmi honum illa.

Spámaður forsetakosninganna spáir Biden sigri

Í viðtalinu við Fox hamraði forsetinn á þeirri möntru að kórónuveiran myndi smám saman hverfa og því ætti að opna alla skóla í september. „Hún hverfur eins og aðrir hlutir sem hverfa og þess vegna er það mín skoðun að skólarnir eigi að opna.“

Í kvöld óskaði svo forsetinn eftir því að annað hvort yrði bætt við kappræðum milli hans og Bidens eða flýta þeim fyrstu. Í bréfi Rudy Giuliani, lögmanni forsetans,  kemur fram að þegar til standi að halda fyrstu kappræðurnar verði mögulega 8 milljónir kjósenda í 16 ríkjum byrjaðir að kjósa.

Forsetaefnin höfðu þegar samþykkt að mætast þrisvar og talsmenn kosningaherferðar Bidens sögðu að forsetinn ætti kannski að verja jafn miklum tíma í kórónuveirufaraldurinn og í áhyggjur sínar af sjónvarpskappræðunum. 

Til að bæta gráu ofan á svart hjá Trump virðist spámaður forsetakosninganna vestanhafs sjá sigur Bidens í kristalskúlu sinni. Allan Lichtman, prófessor í sagnfræði, hefur spáð rétt fyrir um úrslit forsetakosninga síðan 1984 og nýtir til þess gögn sem hann kallar „13 lykla að Hvíta húsinu“.

Fjölmiðlafulltrúi kosningaherferðar Trumps sagði ekkert mark takandi á Lichtman. Það væru bandarískir kjósendur sem kysu forseta,  ekki prófessorar. Lichtman prófessoar gaf lítið fyrir þessi ummæli og sagði spá sína sanna að bandarískir kjósendur teldu Trump hafa brugðist sem forseta. „Hann gerði þau mistök að halda að hann gæti kjaftað sig út úr faraldrinum, kröfunni um félagslegt réttlæti og efnahagsþrengingunum sem landið hefur ratað í .“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi