Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Staðfest smit í öllum landshlutum

05.08.2020 - 13:27
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - covid.is
Smit hafa nú aftur greinst í öllum landshlutum hér á landi. 67 eru í einangrun á höfuðborgarsvæðinu, fjórir á Suðurnesjum, níu á Vesturlandi og einn í hverjum hinna landshlutanna. RÚV greindi frá því á sunnudaginn síðasta að smit hefðu greinst í öllum landshlutum nema á Austurlandi. Nú er þar einn í einangrun.

582 eru í sóttkví á höfuðborgarsvæðinu, 48 á Norðurlandi eystra og 47 á Norðurlandi vestra. 25 eru í sóttkví á Suðurlandi og 14 á Suðurnesjum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - covid.is

Níu ný smit greindust innanlands í gær, öll á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, en þar voru skimaðir 436. Enn er óvíst hversu margir þeirra smituðu voru í sóttkví.

Nú eru því 89 staðfest virk smit hér á landi. Fjórtán bættust við í sóttkví og samkvæmt nýjustu tölum eru nú 746 í sóttkví. 1131 var skimaður á landamærunum og Íslensk erfðagreining skimaði 179 innanlands.

Einn greindist jákvæður á landamærum en sá hafði mótefni.