Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sprengingar í Beirút ollu skjálfta sem mældist 3,5

05.08.2020 - 03:24
Erlent · Hamfarir · Asía · Beirút · Líbanon
epaselect epa08583869 A general view of the harbor area with smoke billowing from an area after a large explosion rocked the harbor area of Beirut, Lebanon, 04 August 2020. According to reports, several people have been injured and large area badly damaged while the cause of the explosion is not yet known.  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tvær gríðarlegar sprengingar við höfnina í Beirút, höfuðborg Líbanons, í gær framkölluðu höggbylgjur sem mældust 3,5 á jarðskjálftamælum. Jarðvísindastofnun Þýskalands greinir frá þessu. Minnst 78 fórust í sprengingunum og um 4.000 slösuðust, mörg alvarlega. Yfirtollstjóri Líbanons varpar ábyrgðinni á hafnarstjórann í Beirút.

Sprengingarnar og höggbylgjan og skjálftinn sem fylgdu ollu mikilli eyðileggingu í borginni, þar sem fjöldi húsa gjöreyðilagðist. Skjálftinn fannst alla leið til Kýpur, um 200 kílómetra undan ströndum Líbanons. Stjórnvöld í Líbanon ganga út frá því að sprengingarnar hafi verið slys fremur en hryðjuverk en heita því að refsa þeim sem ábyrgðina bera.

Miklar og gamlar birgðir af ammoníum-nítrati

Samkvæmt líbanska innanríkisráðuneytinu bendir flest til þess að miklar birgðir af ammóníum-nítrati, líklega um 2.700 tonn, hafi sprungið. Þær höfðu verið í geymslu í vöruskemmu við höfnina um árabil. Ammóníum-nítrat er einkum notað í áburðarframleiðslu en það er afar sprengifimt og því ósjaldan notað af glæpa- og hryðjuverkamönnum til sprengjugerðar. 

Í samtali við Al Jazeera fréttastöðina varpar yfirmaður líbanska tollstjóraembættisins, Badri Daher, allri ábyrgð á hafnarstjórann í Beirút, Hassan Koryatem. „Hafnarstjórinn ber ábyrgðina og ég get sagt ykkur að þetta efni hefði ekki átt að vera þarna ennþá - og hefði raunar aldrei átt að vera þarna,“ segir tollstjórinn.