Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Snyrtifræðingar laga sig að breyttum veruleika

05.08.2020 - 10:10
Mynd með færslu
Oddbjörg að störfum. Mynd: Aðsend mynd
Margar snyrtistofur landsins hafa í bili hætt að bjóða upp á andlitsmeðferðir, svo sem húðhreinsun. Þetta er gert vegna reglna um tveggja metra samskiptafjarlægð og grímunotkun. Hertar reglur tóku gildi í byrjun mánaðar um að alls staðar þar sem tveggja metra fjarlægð er ekki möguleg skuli fólk bera andlitsgrímur fyrir vitum sér.

Margir snyrtifræðingar hafa afbókað andlitsmeðferðir þar sem þarf að vinna í kringum munn til 13. ágúst, að sögn Oddbjargar Kristjánsdóttur, snyrtifræðimeistara og ritara stjórnar Félags íslenskra snyrtifræðinga. Reglur Almannavarna um tveggja metra fjarlægð og grímur gilda til 13. ágúst, hið minnsta.

Enn er þó hægt að fara í litun og plokkun augabrúna og aðrar meðferðir þar sem viðskiptavinurinn getur borið grímu, að sögn Oddbjargar. Hún segir að í byrjun, fyrst þegar reglurnar voru kynntar, hafi verið svolítið óljóst hvort það væru aðeins snyrtifræðingarnir sem ættu að bera grímur en að svo hafi þeir ákveðið sjálfir að grímuskyldan myndi gilda um alla, bæði þá sjálfa og viðskiptavinina.

Mynd með færslu
Oddbjörg Kristjánsdóttir, snyrtifræðingur á snyrtistofunni Cosy og ritari stjórnar Félags íslenskra snyrtifræðinga. Mynd: aðsend mynd

Þegar faraldurinn var sem skæðastur fyrr á árinu þurfti að loka öllum snyrtistofum landsins og segir Oddbjörg það létti að ekki hafi verið gripið til þess ráðs nú. Fólk krossi fingur og voni það besta, enda var tekjumissirinn mikill. 

Það er misjafnt milli snyrtistofa hve mikil áhrif hertar reglur hafa nú, þegar ekki er hægt að bjóða upp á allar tegundir af andlitsmeðferðum. Oddbjörg segir að á sumum stofum séu andlitsmeðferðir stór hluti af starfseminni og af því leiði að fjárhagslega höggið verði meira þar en annars staðar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir

Tengdar fréttir